Skógarbændur á Vestfjörðum: breytingar á stjórn

Þetta lerkitré í Skrúð í Dýrafirði var útnefnt tré ársins 1996 hjá Skógræktarfélagi Íslands.

Félag skógarbænda á Vestfjörðum hélt aðalfund sinn í Króksfjarðarnessi í lok júní. Samþykkt var að árgjald haldist óbreytt, 1500 kr. á jörð og 500 kr. á einstakling. Lagður var fram ársreikningur félagsins og voru tekjur 113 þúsund krónur, skuldir engar og eignir inneign í banka 1.012 þúsund krónur.

Breytingar urðu á skipan stjórnar, tveir stjórnarmenn gáfu ekki kost á sér áfram og voru Lilja Magnúsdóttir og Dagbjartur Bjarnason kosin í þeirra stað. Þriðji stjórnarmaðurinn er Arnlín Óladóttir. Í varastjórn voru kosin áfram Hallfríður F. Sigurðardóttir, Oddný Elínborg Bergsdóttir og Sæmundur Kr. Þorvaldsson.

Fráfarandi stjórnarmenn eru Naomi Bos og Marta Guðrún.

Rætt var um dagskrá árshátíðar og málþings skógræktarbænda sem fara mun fram þann 12. október nk. að Laugum í Sælingsdal. Lagt var til að formenn og eða stjórnarmenn svæðisfélaga skógarbænda kæmu saman með það fyrir augum að sameina krafta skógarbænda og taka ákvörðun um sameiginlega framtíðarsýn. Fleira rætt er varðar samstarf og framtíð félaganna.

Líflegar umræður urðu um skógrækt og sauðfjárbúskap, málefni sem fundarmenn voru sammála að þurfi að finna farsæla lausn á.

DEILA