Samgöngustofa tengist stafrænu pósthólfi

Samgöngustofa hefur tengst stafrænu pósthólfi á Ísland.is. Með því gefst kostur á aukinni skilvirkni og betri þjónustu við viðskiptavini.

Í fyrsta áfanga verður pósthólfið nýtt til að minna fólk á skoðunartíma ökutækja sinna. Fyrsta virka dag fyrsta skoðunarmánaðar ökutækisins verður eiganda ökutækisins (aðaleiganda eða umráðamanni) sendur póstur gegnum Ísland.is um að nú sé komið að skoðun. Einnig fær fólk póst um tveimur vikum áður en vanrækslugjald fellur á. Ábyrgð á því að færa ökutæki til skoðunar liggur áfram hjá eiganda eða umráðamanni þess.

Allir einstaklingar sem fá útgefna kennitölu og allir lögaðilar sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá hafa aðgang að sínu eigin stafræna pósthólfi á Ísland.is. Hægt er að stilla pósthólfið þannig að það sendi hnipp til eiganda þess þegar póstur hefur borist.

DEILA