Sæunnarsund 2024 – Aðein 35 fá að taka þátt

Opnað hefur verið fyrir skráningu í Sæunnarsund 2024 sem fram fer 31. ágúst. Það verða aðeins 35 skráðir í sundið svo það er um að gera að skrá sig sem fyrst og hefja undirbúning fyrir þetta magnaða sund.

Svonefnt Sæunnarsund var mikið þrekvirki sem unnið var af kú nokkurri sem synti yfir Önundarfjörð á flótta undan örlögum sínum. Forsaga uppákomunnar er sú að árið 1987 þurfti bóndi á bænum Neðri-Breiðadal í Önundarfirði að fækka gripum sínum vegna nýrra laga um gripakvóta. Hann þurfti því að slátra einni af kúnum á bænum, og varð rauðdumbótt kýr kölluð Harpa fyrir valinu. Bónda þótti mikil synd að þurfa að slátra Hörpu, enda var hún fullfrísk og mesta öndvegisskepna.

Harpa var flutt til Flateyrar þann 13. október þar sem hún átti stefnumót við slátrarann. Ætla má að kusa hafi fundið á sér að ekki var allt með felldu, því hún sleit sig lausa við sláturhúsdyrnar og stökk í sjóinn á flótta. Hún byrjaði að synda yfir Önundarfjöð þveran, rúmlega tveggja kílómetra leið og var komin í land hinu megin við fjörðinn um klukkutíma síðar.

Guðmundur Steinar Björmundsson og Sigríður Magnúsdóttir, bændur á Kirkjubóli í Valþjófsdal sem er hinum megin við Önundarfjörð, voru látin vita af stöðu mála og fylgdust með sundi Hörpu yfir fjörðinn. Þau áttu ekki von á að hún myndi hafa sundið af og var því óvænt ánægja að hún skilaði sér á land. Hjónin á Kirkjubóli ákváðu að verðlauna henni þrautseigjuna með því að taka han að sér í stað þess að senda hana aftur til slátrarans. Harpa hóf þannig nýtt líf á Kirkjubóli undir nýju nafni og var nú nefnd Sæunn, með tilvísun í sjósundið mikla.

Sæunn dafnaði vel á nýja heimilinu eftir að hafa bjargað eigin lífi með sundinu. Hún byrjaði að mjólka nokkrum dögum síðar og eignaðist kvígu á sjómannadaginn 1988, aðeins átta mánuðum eftir sundið. Það þýðir að hún hefur verið kelfd þegar hún flúði undan slátraranum. Sæunn lifði í 6. vetur til viðbótar á Kirkjubóli, en var felld árið 1993. Hún var þá heygð í sjávarkambinum þar sem hún kom í land og hefur hann síðan verið kallaður Sæunnarhaugur. 

Í Önundarfirði er árlega haldið svokallað Sæunnarsund í lok sumars, en þá sama leið synt og Sæunn fór forðum, frá Flateyrarodda og í Valþjófsdal. Sundið er rúmir tveir kílómetrar og tekur hrausta manneskju um 40 mínútur.

DEILA