Reykhólahreppur: áhyggjur af umferðaröryggi

Jóhanna Ösp Einarsdóttir er oddviti í Reykhólahreppi.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps ályktaði fyrr í sumar um samgöngur í sveitarfélaginu og lýsti yfir áhyggjum af umferðaröryggi á vegum frá Bjarkalundi að Gilsfjarðarbrú og óskaði eftir fundi með Vegagerðinni til þess að ræða lausnir til úrbóta.

Í ályktuninni segir að „Vestfjarðavegur 60 er þjóðvegur Vestfirðinga og mun verða aðalvegur vestur á firði á næstu árum og stysta leið til annarra landshluta. Vegurinn hefur farið mjög illa vegna þungaflutninga í leysingum vorið 2024 og er slitlag víða ónýtt eða búið að breyta þeim aftur í malarvegi. Þrátt fyrir að framkvæmd um nýtt slitlag sé á áætlun nú í sumar mun sú framkvæmd hafa þau áhrif að aðrir vegir innan sveitarfélagsins sitja á hakanum.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur áhyggjur af þjónustu og viðhaldi á vegum í sveitarfélaginu. Mikilvægt er að þjónusta malarvegi og sinna vetrarþjónustu svo fólk geti tilheyrt því samfélagi sem þau búa í.“

Jóhanna Ösp Einarsdóttir, oddviti Reykhólahrepps segir að ekki hafi enn orðið af fundi en hann verði þegar nær dregur haustinu.

Þá stefnir í að nýtt sitlag á malarkaflana, sem gerðir voru í vor á þjóðvegi 60, verði ekki lagt fyrr en í september.

DEILA