Örnukeppnin – hjólreiðakeppni á Vestfjörðum í næstu viku

Þann 24. júlí munu 40 hjólreiðakappar víðs vegar að úr heiminum taka þátt í hjólreiðakeppni sem nú er haldin í þriðja sinn: þeir munu á fimm dögum hjóla 956 kílómetra leið um Vestfirði, í sumarbirtu allan sólarhringinn. Keppnin hefst á Silfurtorgi á Ísafirði klukkan 7:00 að morgni.

Keppnin nefnist Arna Westfjords Way Challenge og ArcticFish Midnight Special 2024.

Keppnin tekur fimm daga og er sú fyrsta sinnar tegundar segir í fréttatilkynningu. Keppninni er ætlað að tengja samfélag og þátttakendur. Hjólreiðakappar eru hvattir (og skyldaðir) til að koma við á „menningarlegum viðkomustöðum“ svo sem heitum laugum, kaffihúsum eða söfnum, líta upp og njóta aðeins og á þann hátt berst fjörið í keppnis vikunni um allt svæðið! Á meðan stöðvast tímatakan.

Hjólreiðafólkið kemur við á yfir 20 menningarlegum viðkomustöðum í vikunni, meðal annars kaffihúsinu í Litlabæ, fjölskyldureknum dýragarði að Hólum í Búðardal, heitum laugum svo sem Reykjafjarðarlaug og Dynjanda og Svalvoga þar sem vegurinn liggur í flæðarmálinu. Keppninni lýkur fyrir framan Edinborg (Pollgötumegin) þar sem verðlaunaafhending fer fram innandyra, afrekum verður fagnað fram eftir kvöldi.

Stærsti styrktaraðili keppninnar er Mjólkurvinnslan Arna í Bolungarvík sem framleiðir laktósafríar mjólkurvörur og dregur keppnin nafn sitt af þeim. ArcticFish styrkir keppnina einnig rausnarlega og ber lokakeppnin nafn þeirra ArcticFish Midnight Special. Aðrir styrktaraðilar eru Reiðhjólaverslunin Berlín, Hótel Ísafjörður,Borea Adventures, Kaffitár, Corsa, Oddi, Collab Hydro og Grainy Foods.

Frekari upplýsingar koma fram á cyclingwestfjords.com, Facebook og Instagram.

DEILA