Orkumálastjóri hættir um áramótin

Halla Hrund Logadóttir, Orkumálastjóri.

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi mun hætta um næstu áramót. Orkustofnun verður þá lögð niður sem og starf orkumálastjóra.

Umhverfis- og orkustofnun tekur við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar og var starf forstjóra þeirrar stofnunar auglýst í Morgunblaðinu í morgun.

Starfsstöð forstjóra verður á Akureyri en stofnunin verður með starfsstöðvar víða um land.

Þrjár stofnanir í stað fimm

Alþingi samþykkti fyrir þinglok í vor lög um sameiningu stofnana og verða til þrjár nýjar stofnanir sem leysa fimm af hólmi.

Auk Umhverfis- og orkustofnunar verða til um Náttúrufræðistofnun og Náttúruverndarstofnun og er embætti forstjóra beggja stofnanan auglýst í Morgunblaðinu í dag.

Náttúruverndarstofnun tekur um næstu áramót við Vatnajökulsþjóðgarði og starfsemi náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar. Náttúruverndarstofnun sinnir verkefnum á sviðum náttúruverndar og sjálbærrar þróunar, friðlýstra svæða, þ.m.t. þjóðgarða, vernd villtra fugla og spendýra og veiðistjórnunar. Verður starfsstöð forstjóra á Hvolsvelli.

Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn voru sameinaðar Náttúrufræðistofnun Íslands, sem við breytingarnar fékk heitið Náttúrufræðistofnun og tók ný sameinuð stofnun til starfa 1. júlí sl.. Starfsstöð forstjóra mun vera á Vesturlandi en starfsstöðvar stofnunarinnar eru víða um land.

DEILA