Ögurball laugardaginn 20. júlí

Hið árlega Ögurball verður haldið í Ögri við Ísafjarðardjúp laugardaginn 20. júlí nk. Aðgöngumiða fylgir tjaldsvæði, aðgangur að sveitaballinu og samkvæmt hefð heimagerður rabarbaragrautur með rjóma. Gestir ballsins eru frá 18-88 ára og þess vegna eru ýmis dagskráratriði sem höfða til mismunandi aldurshópa.


Dagskráin hefst með skötuveislu í hádeginu föstudag 19. júlí. Um kvöldið verður barsvar „pub quiz“. Á laugardagsmorgun verður söguganga um svæðið sem endar með messu í Ögurkirkju. Um miðjan dag verður “beer pong” mót og Ögurballið sjálft fer svo fram um kvöldið í samkomuhúsinu í Ögri, þar sem hljómsveitin Fagranes spilar fyrir dansi.

Húsið var byggt 1925 og styttist því í aldarafmæli ballsins sem fjölskyldan í Ögri stendur fyrir. Á hverju ári velja skipuleggjendur Andlit Ögurballsins einstakling sem hefur tengingu við ballið og tekur þátt í kynningu þess. Ísfirðingurinn Helgi Bergsteinsson er andlit Ögurballsins í ár en hann hefur verið tíður gestur á ballinu, mikill stemningsmaður og vel tengdur í sínar rætur í Djúpinu.


Guðrún Helga Hafliðadóttir, ein af skipuleggjendum ballsins segir; „Það er gömul hefð að bjóða
rabarbaragraut með rjóma á ballinu. Þegar ballið var haldið fyrst fyrir tæpri öld kom fólk alls staðar að úr Djúpinu, flestir sjóleiðina og sumir ríðandi eða gangandi. Svo var dansað til morguns. Til að hjálpa gestum að skerpa athyglina fyrir heimferðina var tekið upp á því að bjóða upp á dísætan rabarbaragraut með hnausþykkum rjóma. Við höldum í hefðina og grautinn geri ég eftir uppskrift ömmu minnar Maju í Ögri, rjómann fáum við frá Erpsstöðum. Þetta er svo ótrúlega skemmtilegt, stórfjölskyldan skipuleggur sumarfríið út frá þessari helgi. Vinir og vandamenn eru farnir að gera það sama til að hjálpa okkur, og það er svo frábært að sjá sama fólkið koma ár eftir ár”.

Ögurballið er einn vinsælasti viðburður sumarsins á Vestfjörðum, á ballið er að sjálfsögðu 18 ára aldurstakmark, og enginn yngri má koma á svæðið nema í fylgd foreldra.

Myllumerki ballsins er #ogurball og má finna á Facebook og Instagram.

DEILA