F.22. apríl 1945 – D. 6. september 2021.
Útför hans fór fram 20. september 2021.
Sá kunningsskapur er jafnan hlýjastur, sem bundinn er snemma á ævi, af því að hann byggist oftast á því, að menn fella skap saman. Það fór vel um tuttugu og fjögur stúdentsefni Verslunarskólans uppi á hanabjálka hússins við Grundarstíg. Lærifeðurnir hver öðrum ágætari og gott að minnast þeirra.
Skólastjórinn, dr. Jón Gíslason, sá viðbrigðasnjalli kennari, gerði okkur nemendum sínum að læra utanbókar 20 endursagnir á þýsku. Þessar sprettilræður áttu eftir að koma mörgum manninum vel heldur en ekki, síðar á ævi.
Ein var á þá leið, að auðmaður amrískur réði hinn góðfræga ítalska tenór Enrico Caruso sem þá var í söngferð um Bandaríkin, til þess að halda fyrir sig húskonsert og hét honum himinhárri fjárhæð að launum. Söngvarinn stóðst ekki mátið, kom á vettvang á tilsettum tíma og tók með sér píanóleikara. En honum til mikillar undrunar voru engir viðstaddir í viðhafnarstofu auðkýfingsins, þar sem flygill var til reiðu, aðrir en húsbóndinn sjálfur og svolítill kjölturakki hans. Og ekki hafði upphafið að íðilfagurri aríu fyrr farið að hljóma en héppi tók að spangóla ámátlega (jämmerlich zu heulen begann). “Látið þér þetta duga, góði,” sagði þá milljónarinn og rétti hinum rómaða söngmanni ávísun, “ég ætlaði bara að vita hvort hundurinn minn ýlfrar líka, þegar Caruso syngur!”
Í löngu frímínútunum kl. 10.40 til 11.00 var plagsiður nemenda að hlaupa út í húsið nr. 37 við Bergstaðastræti, þar sem var verslunin “Síld og fiskur”, steinsnar frá skólanum, og kaupa af Þorvaldi nýbakaða flatköku og salat. Kaupmaður hafði farið ofan um morguninn í rauðabítið að hnoða saman þetta dýrindis bakkelsi úr rúgmjöli, heilhveiti, sykri og mjólk, en auk þess hrært eggjarauður, grænar baunir, gulrætur og safa úr sítrónu saman við olíusósu, svo að úr varð lostæti, sem hét ítalskt salat. Þessu dengdi hann ótæpilega ofan á flatkökuna, sem við brutum saman, hvomuðum í okkur og kneyfuðum maltöl við.
Skólabúðina, sem rekin var til þess að afla fjár fyrir útskriftarferð til Ítalíu, skiptust skólasystkinin á að annast, tvö og tvö saman. Samviskusemi og nákvæmni Einars fór ekki fram hjá stallbróður, sem var svo heppinn að starfa með honum að þessu.
Um vorið var svo haldið utan í skemmtiferð og komið til Róms og Pompeii, borgarinnar sem eldfjallið Vesúvíus gróf undir hraun árið 79 e. Kr. Elstu íbúðarhúsin höfðu verið reist á 4. öldinni fyrir Krists burð. Ævintýralegur uppgröftur hófst árið 1709 og leiddi í ljós svo jarðneskar leifar íbúanna sem húsakynni þeirra, eldhúsáhöld, mubblur og baðhús.
Eftir að læknar hættu að ganga sig með töskuna sína heim til fólks og urðu síðar nærri því óínáanlegir, var alveg ómetanlegt að eiga Einar að.
Góð kveðja er flutt frá samstúdentum frá VÍ ‘65.
Með þökk og í bæn um blessun Guðs er kær skólabróðir og vinur, Einar Hjaltason, kvaddur. Guð varðveiti minningu hans og ástvinina alla.
Gunnar Björnsson,
pastor emeritus.