Mikið fjör á Náttúrubarnahátíð á Ströndum

Það var mikið um að vera á Sauðfjársetrinu í Sævangi um helgina en þar fór fram árviss Náttúrubarnahátíð á Ströndum. Þetta er í áttunda skipti sem hátíðin er haldin og var fjölbreytt og skemmtileg dagskrá sem einkenndist, líkt og áður, af útivist, náttúrutúlkun, fróðleik og fjöri.

Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur, er skipuleggjandi hátíðarinnar og segir allt hafa gengið vel: „Þetta var bara ótrúlega skemmtilegt, eins og alltaf. Veðrið hefði kannski mátt vera aðeins betra á laugardag, það rigndi aðeins á hátíðargesti, en það voru allir vel útbúnir“ Hátíðargestir eru vanir að framkvæma veðurgaldur á föstudeginum og Dagrún vill meina að hann hafi ekki brugðist frekar en fyrri daginn: „Það var ívið betra veður á Sauðfjársetrinu en í nágrenninu á laugardeginum, svo veit maður aldrei hvað hefði orðið, kannski afstýrðum við snjókomu“ segir hún hlægjandi.

Á dagskránni voru meðal annars margvíslegar smiðjur, til dæmis frá Arfistanum, Þykjó og Náttúruminjasafni Íslands sem var samstarfsaðili hátíðarinnar í ár. Þá var farið í náttúrujóga, á hestbak og kajak og boðið upp á brúðuleikhús, töfraskemmtun, vísindasýningu og stuðtónleika með Gunna og Felix.

„Það hafa svona á milli 300-400 manns litið við um helgina og stoppað mislengi við,“ segir Dagrún sem er ánægð með þátttökuna. Það hefur verið einkenni hátíðarinnar að það er frítt að taka þátt í öllum dagskrárliðum hennar. „Þetta er okkur ofboðslega mikilvægt, en væri ekki mögulegt nema með styrk frá Uppbyggingasjóði Vestfjarða, sem er grundvöllur þess að hægt sé að halda hátíðina eins og hún er.“ Hátíðin í ár var einnig styrkt af Orkubúi Vestfjarða, Ferðaþjónustunni á Kirkjubóli og Sláturfélagi Suðurlands og Dagrún er þakklát fyrir stuðning og aðstoð: „Raunar er þakklæti það sem er manni efst í huga eftir svona helgi, það eru svo ótrúlega margir sem koma að svona hátíð, starfsfólk og stjórn Sauðfjársetursins, hellingur af sjálfboðaliðum sem eru boðnir og búnir að hjálpa til við undirbúning og um helgina, allt listafólkið og skemmtikraftarnir og svo auðvitað gestirnir sem eru alveg frábærir,“ segir Dagrún að lokum.

Strandahestar.

DEILA