Meðalævilengd lækkar á milli ára

Meðalævilengd karla á Íslandi var 80,7 ár árið 2023 og meðalævilengd kvenna 83,8 ár en meðalævilengd sýnir hve mörg ár einstaklingur á að meðaltali ólifuð við fæðingu ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjöldans.

Frá árinu 1985 hafa karlar bætt við sig tæplega sex árum og konur tæplega fjórum í meðalævilengd. Ævilengd karla minnkaði hins vegar um 0,4 ár frá árinu 2022 á meðan hún minnkaði nokkru minna hjá konum eða um 0,1 á milli áranna 2022 og 2023.

Ólifuð meðalævi sýnir hve mörg æviár einstaklingur, karl eða kona, á að meðaltali ólifuð miðað við að hann/hún sé á lífi við upphaf tiltekins aldursskeiðs. Algengt er að reikna ólifaða meðalævi við fæðingu, 1 árs aldur, 15 ára, 50 ára, 65 ára og 80 ára aldur. Ólifuð meðalævi við fæðingu er jafnframt kölluð meðalævilengd.

DEILA