Matvælaráðherra: vegið að starfsheiðri starfsfólks Mast – geigvænleg þróun

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra segir það sé geigvænleg þróun að draga starfsfólk opinberra stofnanna inn í umræðuna í nafni persónulegrar ábyrgðar gagnvart ákvörðunum þeirra stofnanna sem þau starfa fyrir. Þar sé starfsfólk jafnvel nafngreint, allt í þeim tilgangi að draga úr trúverðugleika þeirra og þar með þeirra verkefna sem þau sinna hverju sinni.

Bæjarins besta innti ráðherrann eftir svörun hans við ummælum Jóns Kaldal talsmanns IWF um ábyrgð starfsmanna á útgáfu rekstrarleyfis til laxeldis. En Jón sagði í viðtali á Vísi síðasta þriðjudag:

„Full ástæða er til að velta fyrir sér persónulegri ábyrgð starfsmanna MAST, sem tóku þessa ákvörðun og skrifa undir leyfið, ef slys verða vegna staðsetninga sjókvíanna á siglingaleiðum þar sem Samgöngustofa segir að þær megi ekki vera. Stofnanir hafa ekki sjálfstæðan vilja. Það er fólk sem stýrir þeim og hlýtur að þurfa að bera ábyrgð á afleiðingum verka sinna.“

Í svari sínu vísar Matvælaráðherra til færslu á facebook síðu sinni á föstudaginn. Þar segir ráðherrann að umræðan um leyfisveitingu Matvælastofnunar til Arnarlax fyrir 10.000 tonna eldi á ófrjóum laxi hafi ekki aðeins staðið um efni máls heldur einnig um persónulega ábyrgð starfsfólks stofnunarinnar.

„Þetta er í takt við þá þróun sem við höfum séð víða erlendis þar sem starfsfólk opinberra stofnanna er dregið inn í umræðuna í nafni persónulegrar ábyrgðar gagnvart ákvörðunum þeirra stofnanna sem þau starfa fyrir. Starfsfólk er jafnvel nafngreint, allt í þeim tilgangi að draga úr trúverðugleika þeirra og þar með þeirra verkefna sem þau sinna hverju sinni. Á þennan hátt er nú vegið að starfsheiðri starfsfólks undirstofnunar matvælaráðuneytisins.“

Óábyrg umræða grefur undan trausti

Ráðherrann bætti við:

„Þetta er geigvænleg þróun sem er til þess eins fallin að skapa farveg fyrir óábyrga umræðu þar sem óstaðfestar fullyrðingar um meint óheilindi starfsfólks grassera og grafa undan trausti til opinberra stofnana og trausti í samfélaginu. Þau sem taka sér það ábyrgðarhlutverk að berjast fyrir hagsmunum almennings og veita hinu opinbera aðhald þurfa að fara með þá ábyrgð af kostgæfni. Í því felst að beina sjónum sínum að stjórnvöldum, að stofnunum og efni málsins en ekki að starfsfólki enda er ekkert sem gefur tilefni til tortryggni í garð starfsfólks Matvælastofnunar. Sú umræða á einfaldlega ekki rétt á sér.“

DEILA