Mansavinir Suðureyri: 37. keppnin á morgun

Ungir mansaveiðimenn í keppninni í fyrra.

Á morgun laugardaginn 13. júlí fer fram á Suðureyri 37. keppnin í veiðum á marhnút. Ævar Einarsson er helsti hvatamaðurinn að keppninni og hefur staðið fyrir henni öll árin frá fyrstu keppni 1988.

Keppnin fer fram á höfninni á Suðureyri og hefst kl 15:15. Keppendur mæti heldur fyrr eða kl 14:30 til skráningar og fara yfir keppnisreglur. Hver mætir með sína veiðistöng.

Keppnin felst í veiðum á marhnút og eru veitt vegleg verðlaun sem Klofningur ehf gefur.

Veitt verða 1. , 2. og 3. verðlaun fyrir mest magn af afla, samanlagt af marhnút og öðrum afla. Einnig eru veitt verðlaun fyrir stærsta og minnsta marhnútinn og furðulegustu veiðina.

Öll verðlaun eru til eignar nema farandbikar fyrir mestan afla.

Það er félagsskapurinn Mansavinir sem halda keppnina og einkum er það yngsta kynslóðin sem er áhugasöm um að taka þátt.

Ævar sagði að keppnin hafi verið haldin samfleytt frá fyrstu keppni og aldrei fallið úr ár, ekki einu sinni í kovid tímabilinu. Eitt árið á þeim tíma voru að vísu eingöngu heimamenn sem tóku þátt og allir voru með grímu, en þannig tókst að halda keppnina.

Ævar Einarsson mansavinur.

Frá keppnishaldinu í fyrra.

Verðlaunagripirnir eru veglegir.

DEILA