Ljúfar móðurminningar 

Þann 8.júlí síðastliðin varð frumburðurinn minn 45 ára – ótrúlegt hvað tíminn líður !

Ég er vön að senda dætrum mínum smá minningarbrot frá bernskudögum þeirra með afmæliskveðjunum sem þær kunna vel að meta. 

Þessar kveðjur hræra gjarnan upp í minningarbankanum svo mér datt í hug að setja nokkrar niður á blað og deila með ykkur.

Dæturnar eru fjórar fæddar á tæpum sex árum.

Þetta eru skynugar stelpur og það kom snemma í ljós að þær voru ákaflega starfsamar og höfðu ríka sjálfsbjargarviðleitni. Þær vildu öðru fremur sanna að þær gætu gert hlutina upp á eigin spýtur. – Ég skal ! sögðu þær og það voru allavega aðferðir notaðar við að reima á sig skóna – krummafótur var aukaatriði – það sem skipti máli var að hafa „faglega“ hnýtta skó á báðum.

Þær voru ósköp góðar þegar þær voru litlar og léku sér saman í mesta bróðerni undir forystu þeirra elstu. Þær voru alveg lausar við rell og suð en gátu átt það til að vera uppátækjasamar – sérstaklega þær eldri.

Stundum var allt undirlagt meira að segja salernið svo tipla varð á tám milli opinberra stofnana og einkaframtaksins ef komast átti klakklaust um í þeirra litlu veröld.

Við bjuggum á Eyrarbakka þegar þriðja systirin fæðist og hún segir mér elsta dóttirin að það sé með hennar fyrstu minningum þegar þær tvær eldri fengu að fara með pabba að heimsækja mömmu á fæðingardeildina til að sjá litlu systur.

Litla lubbastelpan okkar var svo skýrð í Eyrarbakkakirkju á sjómannadegi. Öll fjölskyldan að sjálfsögðu mætt til kirkju ásamt nokkrum ættingjum – með allan hugan við við væntanlega athöfn og afann sem átti að halda barninu undir skírn. Þær stuttu voru ekki lengi að notfæra sér það og áður en nokkur vissi af voru þær komnar upp að altarinu og farnar að tína blómin af kransinum sem átti að fara á leiði óþekkta sjómannsins. Það er þá tekin sú ákvörðun að senda eina frænkuna með þær heim því þær voru líka komnar með meiri áhuga fyrir kirkjugestunum sem hlógu af uppátæki þeirra heldur en því sem í vændum var. Þegar heim var komið komust þær í annað sem þeim þótti ekki minna spennandi en blómin – það voru terturnar sem þær auðvitað þurftu að kanna aðeins – þá sérstaklega skrautið.

Þegar við komum svo heim að athöfn lokinni ásamt presti sem hafði verið boðið í kaffi var hlaupin smá galsi í stelpurnar – sjálfsagt af öllu kökuskrautinu svo þær voru hlaupandi um á meðan gestir gæddu sér á kaffi og kökunum sem þær höfðu tekið forskot á og það endar með því að að önnur þeirra sú yngri hleypur í fangið á presti og þegar hún áttar sig á fyrirstöðunni lítur hún upp á hann og segir – jesús minn guð ! og svo var hún rokin.

Litla systir var með eindæmum rólegt barn – sat þar sem hún var sett niður og lét sér nægja það sem henni var fært til dundus oft í félagsskap Óla páfagauks sem þótti ekki verra þegar buglis eða ceerios var á boðstólnum. Hún virtist ekki hafa nokkurn áhuga fyrir því að tæta og rífa né að kynna sér veröldina með bragðlaukunum eins og barna er siður. Ef hún fór á stjá þá voru það helst stríðsárabækurnar sem voru í hættu – henni tókst að rífa þær niður gólf þó miklir hlunkar væru og horfði svo sigrihrósandi á mömmu sína – aðrar bækur lét hún lét hún eiga sig – henni virtist bara í nöp við þessar – enda friðelskandi manneskja allar götur.

Sú yngsta var nýfædd þegar við flytjum á Ísafjörð. Hún var vart farin að standa í fæturna þegar hún  var innrituð í skólann sem starfræktur var á efri hæðinni á Seljarlandsveginum allt árið um kring með smá hléum þó – hún því orðin fluglæs fimm ára. Skólastarfsemi fléttaðist inn í svo marga leiki hjá þeim systrum – þær eldri miðluðu þá kunnáttu sinni til þeirra yngri.

Það var til mikið safn af barnabókum á heimilinu – það vantaði þó eina og eina blaðsíðu í sumar sem höfðu verið notaðar sem jólapappír þegar slegið hafði verið upp jólum kannski á miðju sumri í einhverjum þykjustuleiknum.

Eftir að við fluttum á Hnífsdalsveginn setti sú yngsta upp bráðamóttöku fyrir vængjuð og ferfætt fórnarlömb heimiliskattarins og búið var um þau í rúmfataskúffunni – en fyrir gat komið að þau sem enn voru rólfær færu á stjá við lítinn fögnuð. En stelpan var orðin ansi lunkin við að góma skepnurnar þó fullfrískar væru og ríkti því stundum stríðsástand á milli hennar og kattarins því hann var engan vegin sáttur við þetta björgunarstarf.

Einu sinni eftir að bráðamóttakan hafði verið lögð niður lét hún sig hafa það að hlaupa á náttfötunum seint um kvöld niður í fjöru með eina í lófanum til að bjarga henni frá kettinum.

Þær hafa alltaf verið samrýmdar systur og stutt hvor aðra þegar eitthvað hefur á bjátað – fyrir það er ég endalaust þakklát. En það gat enga að síður kastast í kekki þeirra í milli á stundum sérstaklega eftir á gelgjuskeiðið var komið. Seinni fréttir herma að þá hafi símaskráin fengi að kenna á því – það var þá komin skýring á því afhverju hún var alltaf svona ræfilsleg þrátt fyrir árlega endurnýjun – sem og lokið af óhreinatauskörfunni.

Símaskráin var sem sé notuð til að leggja áherslu á hlutina í misklíðarmálum og sú sem átti í vök að verjast notaði þá lokið af óhreinatauskörfunni sem skjöld. Fyrir gat komið að eitthvað innanstokks yrði fyrir hnjaski í átökunum – en takmarkaðar skýringar fengust þegar gengið var eftir þeim – ásakanir vildu þá ganga á víxl – það var því sagt með áherslu þegar bíllinn lenti hálfur inn um herbergisglugga hjá okkur fyrir margt löngu – ég gerði þetta ekki ! – Drífa gerði þetta ! – Edda ætlaði sko ekki að láta kenna sér um þessi ósköp – Alda og Brynja voru þá ekki heima.

Edda sem augnabliki áður hafði yfirgefið herbergið og lokað því á eftir sér áttaði sig ekki á hvað hafði í raun skeð. Hún var í tölvuleik og sat alveg upp við gluggann – hún stendur upp, labbar út og lokar á eftir og er rétt komin fram á miðjan gang þegar ósköpin dynja yfir – þarna munaði aðeins örfáum sekundum. Merkilegt að hún skuli hafa lokað á eftir sér þar sem þetta herbergi stóð alltaf opið því þar var talvan sem allir höfðu aðgang að.

Það var mikil blessun að enginn skuli hafa slasast – hvorki innandyra né úti.

Systur eru allar mjög duglegar og atorkusamar enda oft fengið lof frá sínum vinnuveitendum fyrir dugnað og ósérhlífni og Drífa mín eitt sinn leyst út með kitchenaid hrærivél af vinnuveitanda sem sagðist kunna að meta góða starfskrafta.

Þær hafa allar sótt sér góða menntun og starfa við það sem þær hafa menntað sig til.

Þær hafa spjarað sig vel þó á móti hafi blásið og komist áfram á eigin verðleikum.

Þær hafa þurft að hafa fyrir hlutunum og oft saknað þess sem öðrum þykir svo eðlilegt og sjálfsagt – því þrátt fyrir góða eiginleika þykir gott að hafa þá sem kærastir eru sér til halds og trausts þegar gengið er til móts við nýjar áskoranir í lífinu – ekki bara að hálfu leyti – heldur öllu.

Ákvarðanir og afskipti annarra óviðkomandi geta svo sannarlega haft áhrif á líf þeirra sem síst skyldi.

Ég er stolt af stelpunum mínu og sakna þeirra endalaust – meigi guð og góðar vættir vaka yfir þeim sem og ykkur á þessum válegu tímum.

Lifið heil !

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

DEILA