Knattspyrna: Vestri fær FH í heimsókn

Á morgun kl 14 mætir Vestri á Kerecis vellinum á Torfnesi FH frá Hafnarfirði í Bestu deildinni.

FH hefur átt gott tímabil í sumar og er liðið í 4. sæti deildarinnar eftir 15 umferðir með 25 stig. Hefur liðið unnið 7 leiki, gert 4 jafntefli og tapað einungis 4 leikjum.

Vestri er í 11. sæti með 12 stig aðeins tveimur stigum á eftir KR og HK. Í síðasta leik sótti Vestri HK heim í Kópavoginn og gerði ágætt jafntefli.

Í þeim leik voru veikindi og meiðsli að hrjá leikmannahóp Vestra. Andri Rúnar Bjarnason var veikur og Pétur Bjarnason meiddur. Á móti kom að danski miðvörðurinn Gustav Kjeldsen var kominn á varamannabekkinn mun fyrr en búist var við eftir að hafa slitið hásin í vetur.

Samúel Samúelsson segir að Andri Rúnar sé búinn að ná sér, fyrirliðinn Elmar Garðarson einnig og Fatai sé kominn úr leikbanni. „Það er baráttuhugur í okkar mönnum og liðið er staðráðið í því að ná í sinn fyrsta sigur á Kerecis vellinum á morgun.“

DEILA