IWF: haft í hótunum við embættismenn

Mynd úr frétt Vísis í gær.

The Icelandic Wildlife Fund, sem einnig nefnist íslenski náttúrverndarsjóðurinn, hefur kært til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, útgáfu leyfis Matvælastofnunar til Arnarlax til laxeldis í Ísafjarðardjúpinu á ófrjóum laxi.

Athygli vekur að talsmaður sjóðsins, Jón Kaldal, sér ástæðu til þess að vega sérstaklega að embættismönnum Matvælastofnunar. Hann segir í viðtali á Vísi í gær :

„Full ástæða er til að velta fyrir sér persónulegri ábyrgð starfsmanna MAST, sem tóku þessa ákvörðun og skrifa undir leyfið, ef slys verða vegna staðsetninga sjókvíanna á siglingaleiðum þar sem Samgöngustofa segir að þær megi ekki vera. Stofnanir hafa ekki sjálfstæðan vilja. Það er fólk sem stýrir þeim og hlýtur að þurfa að bera ábyrgð á afleiðingum verka sinna.“

Þarna er Jón Kaldal að ráðast að embættismönnum í starfi og vill gera þá persónulega ábyrga fyrir leyfisveitingunni og refsa þeim. Hótun af þessu tagi er að mínu mati sett fram til þess að hræða embættismennina og beygja þá undir vilja þeirra sem eru andvígir laxeldinu. Þetta er ekkert annað en ofbeldi.

Því miður er þetta ekki einsdæmi. Um áramótin var annað dæmi upp á teningnum. Þá var það framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga, Gunnar Örn Petersen sem réðist að lögreglustjóranum á Vestfjörðum fyrir að hafa lokið rannsókn á þætti stjórnenda eldisfyrirtækis á slysasleppingu í Patreksfirði með þeirri niðurstöðu að fella málið niður. Gunnar Örn fór, eins og Jón Kaldal nú, beint í manninn og sakaði lögreglustjórann um vanhæfi og að hann kynni ekki lögfræði. Krafðist hann þess að Ríkissaksóknari ógilti niðurstöðu lögreglustjórans á Vestfjörðum. Það gekk eftir og er málið því enn í rannsókn. Segja má með nokkurri vissu að þar hafi hótanir í garð embættismanna haft áhrif og auðvitað er slíkt líklegt til þess að þessi baráttuaðferð verði endurtekin.

Það er ekkert grín fyrir embættismenn, sem eru að framfylgja lögum, að eiga yfir höfði sér hótanir og jafnvel málshöfðun ef einstökum aðilum að deilumáli líkar ekki framkvæmdin. Þá þarf að hafa í huga að að baki IWF eru vellauðugir einstaklingar og áhrifamiklir.

Úrskurðarnefndin er hin lögbundna leið til þess að skera úr um ágreiningsmál í þessari löggjöf. Verk embættismanna hjá stofnunum ríkisins eru eftir atvikum þar tekin til athugunar og óháðir nefndarmenn kveða upp úr um þau. Síðan er hægt að fara með úrskurð nefndarinnar til dómstóla ef málaðilum sýnist svo. Þetta er leiðin til þess að útkljá málin.

En Jón Kaldal og félagar eru með þessi ofbeldi að færa málin í annan farveg, farveg hótana og ofbeldis. Það er í raun yfirlýsing um að þeir telja ekki líklegt að hafa sitt fram í lögbundnu ferli.

Leyfisveiting með skilyrðum

Að sögn Jóns var rekstrarleyfi MAST var gefið út í júní þvert á afgerandi mat Samgöngustofu um að óheimilt væri að veita leyfi á tveimur eldissvæðanna með tilliti til siglingaöryggis samkvæmt því sem fram kemur á Vísi.

Merkilegt er að IWF hefur einkum varað við erfðablöndun milli eldislax og villts lax. Í þessu leyfi er engin hætta á því. Leyfið nær aðeins til ófrjós lax. En það virðist ekki skipta máli þegar upp er staðið, það er kært engu að síður. Tilefni kærunnar er siglingaöryggi. Það hefur ekkert með stangveiði að gera.

Þarna þarf að bæta við upplýsingum og leiðrétta þessa frásögn. Útgefið leyfi Matvælastofnunar setur skilyrði fyrir nýtingu eldissvæðanna sem þarf að uppfylla áður en hægt verður að setja út eldisfisk. Það skilyrði er byggt á áhættumati siglingaöryggis, sem þrjár opinberar stofnanir unnu, fyrir þau svæði sem leyfið tekur til, en þar er kveðið á um að jaðar sjókvíaeldisstöðvanna Drangsvíkur og Eyjahlíðar skuli ekki vera nær mörkum hvíts ljósgeira vitaljósa en 50 m og jaðar sjókvíaeldisstöðvarinnar Óshlíðar skuli ekki vera nær mörkum hvíts ljósgeira vitaljósa en 200 m.

Með öðrum orðum þá er siglingaöryggið talið í góðu lagi með þessu skilyrði. Þá vísar Matvælastofnun til þess að samþykkt hefur verið strandsvæðaskipulag fyrir Vestfirði þar sem gert er ráð fyrir fiskeldi á ákvæðum svæðum, þar með talið þeim sem leyfi Arnarlax nær til.

Það er því niðurstaða Matvælastofnunar að þar sem það er opinber afstaða að heimila fiskeldi á þessum svæðum sé ekki hægt að hafna útgáfu rekstarleyfis fyrir þau svæði rekstrarleyfisins sem eru í
hvítum ljósgeira. Rekstrarleyfishafi hefur þegar hafið í samvinnu við verkfræðistofuna EFLU að vinna að útfærslu siglingaöryggis m.t.t. mótvægisaðgerða á svæðinu.

Það er því verkefni fyrirtækisins að finna lausnir þannig að skilyrðin verði uppfyllt. Það verður svo að koma í ljós hvernig það gengur. En siglingaleiðir eru ekki óumbreytanlegar og svo má færa til eldissvæði svo eitthvað sé nefnt.

En andstæðingar laxeldisins í Djúpinu hafa stigið varhugavert skref. Hótanir og ofbeldi eru ekki leiðin, en eru kannski til marks um örvæntingu þeirra sem finna að málefnalegu rökin eru ekki þeim í hag.

-k

DEILA