Íslenski náttúruverndarsjóðurinn – milljarðamæringar í ferðaþjónustu og fasteignafélögum

Stjórnarmennirnir í Starir ehf. Mynd: Starir.is

Íslenski náttúruverndarsjóðurinn, sem einnig nefnist the Icelandic Wildlife Fund, IWF, hefur verið í fararbroddi þeirra sem berjast hatrammlega gegn laxeldi í sjó. Helsti talsmaður þeirra og umsjónarmaður vefsíðu sjóðsins er Jón Kaldal fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins. Framkvæmdastjóri sjóðsins er Ingólfur Ásgeirsson.

Megin áhersla sjóðsins er samkvæmt því sem fram kemur á vefsíðu hans náttúruvernd og umhverfismál, þar með talið að standa vörð um villta íslenska laxastofninn, sjóbleikju, sjóbirting og aðra ferskvatntsfiska í ám og vötnum Íslands.

Sjóður í eigu tveggja einstaklinga

Um er að ræða sjóð en ekki samtök. IWF er ekki fjöldasamtök í líkingu við Landvernd heldur sjóður í eigu tveggja einstaklinga. Stofnendur sjóðsins og eigendur eru Ingólfur Ásgeirsson og Lilja R. Einarsdóttir. Tekjur sjóðsins voru árið 2022 aðeins 24 mkr. og eru einvörðungu styrkir samkvæmt því sem fram kemur í ársreikningi. Aðkeypt þjónusta var 12 m.kr. og varið var 6 m.kr. í kynningar og markaðsmál.

Sjóðurinn er skattfrjáls stofnun og því er enginn tekjuskattur gjaldfærður af 3 m.kr. hagnaði segir í skýringum með ársreikningnum.

Starir ehf

Eigandinn Ingólfur Ásgeirsson er einn þriggja eiganda að fyrirtækinu Starir ehf, sem er umsvifamikið í leigu veiðiáa og sölu á veiðileyfum. Hinir tveir eigendurnir eru Davíð Másson og Halldór Hafsteinsson.

Starir er með 13 veiðiár á landinu á leigu og selur veiðileyfi til stangveiði í þeim auk annarrar þjónustu við veiðimenn. Meðal ánna er Langadalsá í Ísafjarðardjúpi.

Tekjur Stara ehf árið 2022 voru 485 m.kr. og greiddi félagið 277 m.kr. í leigu fyrir árnar. Laun og tengd gjöld voru 46 m.kr. og voru stöðugildin 6 að meðaltali yfir árið.

Starir ehf er auk þess eini eigandinn að Laxabakka ehf sem annast sölu veiðileyfi. Tekjur þess voru 153 m.kr. á árinu 2022. Greiddar voru 78 m.kr. í leigu á ám og greiddar voru 7 m.kr. í laun og tengd gjöld.

Eiginfjarstaða Stara ehf var neikvæð um 16 m.kr. í lok ársins 2022.

Wings capital og Hambro – 6 milljarðar króna eignir

Eignarhaldið á Störum ehf er í tveimur einkahlutafélögum. Wings Capital á 67% og Hambro 33%.

Wings Capital fjárfestir í ferðaþjónustufyrirtækjum. Það hagnaðist um 900 m.kr. á árinu 2022 á fjárfestingum í öðrum félögum. Eignir félagsins eru bókfærðar á 2,7 milljarða króna og eigið fé þar af eru 2,3 milljarðar króna. Meðal félaga sem Wings Capital á í eru fasteignafélögin Hraunskarð 2 ehf og Skógar fasteignafélag hf. Að öðru leyti eru ekki veittar upplýsingar um félögin en þó kemur fram að lánað hafi verið til Arctic Adventures hf. sem sé tengt félag.

Wings Capital er í eigu Einibers ehf og Abols ehf sem eiga 44,44% hvort og Halldór Hafsteinsson sem á 11,11%.

Eigendur að Einiber ehf eru Davíð Másson og Lilja Ragnhildur Einarsdóttir með 50% hvort.  Umrædd Lilja er einmitt stofnandi IWF ásamt Ingólfi Ásgeirssyni. Ablos ehf er í eigu Halldórs Hafsteinssonar og Sigurlaugar Hafsteinsson.

Einiber ehf hagnaðist á árinu 2022 um 545 m.kr. af afkomu hlutdeildarfélaga og eigið fé þess var liðlega 2 milljarðar króna í lok ársins 2022. Tilgangur félagsins er eignarhaldsfélag um hluti í félögum, kaup og rekstur fasteigna og lánastarfsemi.

Hitt félagið Ablos ehf er svipað og Einiber ehf. hagnaður þess á árinu 2021 varð 259 m.kr. og byggðist á afkomu hlutdeildarfélaga. Eignir þess voru bókfærðar á 2,2 milljarða króna í lok árs 2021 og eigið fé þar af var 1.662 m.kr.

Samanlagt eigið fé Wings Capital, Einibers og Ablos er því um 6 milljarðar króna samkvæmt síðustu ársreikningum sem aðgengilegir eru.

Þá er ótalið Hambro ehf sem á 33% í Störum ehf og er í eigu Ingólfs Ásgeirssonar. Tekjur þess árið 2022 voru um 11 m.kr. og eignir eru 34 m.kr. þar af eigið fé 15 m.kr.

Eigendur Stara ehf eru því með um 6 milljarða króna eignir undir höndum og samanlagðar tekjur allra þessara félaga var á þriðja milljarð króna á árinu 2022. Það fer því ekki á milli mála að fjársterkir aðilar standa að útgerð á laxveiðiám landsins og sölu veiðileyfa.

Inga Lind – 850 m.kr.

Meðal stjórnarmanna í náttúruverndarsjóðunum er Inga Lind Karlsdóttir. Hún hefur verið áberandi í umræðu um laxeldið og hefur haldið fram margvíslegum firrum um það. Meðal annars hélt hún því fram ítrekað að starfsmenn væru fáir og að mestu leyti erlendir farandverkamenn. Þær staðhæfingar hafa verið hraktar og leitað eftir skýringum hennar á þessum fullyrðingum en Inga Lind hefur engu svarað. Hún virðir ekki fólkið á Vestfjörðum viðlits og ber enga virðingu fyrir störfum þess að hagsmunum. Hún virðist ekki hafa neinn skilning á því að laxeldið hefur snúið við byggðaþróun á Vestfjörðum sem sést á því að fasteignaverð í Vesturbyggð hefur þrefaldast á þeim fáum árum sem liðin eru síðan það komst á legg. Einbýlishús á Patreksfirði, 100 fermetrar er samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem reyndar var unnin fyrir IWF og stjórnarmanninn Ingu Lind, er metið á 24 m.kr. en var fyrir laxeldi aðeins 8 m.kr.

Fyrir Ingu Lind eru 24 m.kr. smámunir. Hún seldi nýlega einbýlishús í Garðabænum á 850 m.kr. og var það sagt dýrasta hús á Íslandi. Krafa Ingu Lindar er að banna laxeldið. Það mun verða til þess að fasteignaverðið fellur aftur á Vestfjörðum og fólkið mun tapa því sem verðhækkunin hefur fært því. Það finnst henni allt í lagi. Hún hefur fengið alla verðhækkun fasteigna í Garðabæ í sinn hlut.

Það virðist einkenna þá sem berjast hvað mest gegn laxeldi á Vestfjörðum á vegum íslenska náttúruverndarsjóðsins að vera vel efnaðir og búa við aðstæður sem almenningur á Vestfjörðum þekkir ekki. Ríka fólkið fer sínu fram, hugsar um sín áhugamál og krefst þess að fá að ráða – og skaða almenning á Vestfjörðum.

-k

DEILA