Ísafjarðarbær: hafnar að fjórhjól fari eftir gamla Seljalandsveginum

Seljaland í Skutulsfirði.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar tók fyrir á síðasta fundi sínum erindi frá eigendum Engjavegar ehf./ATV-Ísafjörður þar sem farið var fram á heimild til þess að fara á fjórhjólum gamla Seljalandsveginn frá Skíðaveginum og niður að gamla Brúarnesti (það er, þar sem sá vegur lá í gamla daga
og er nú merktur vegslóði).

Fyrirtæki hefur síðustu 8 ár boðið upp á ferðir á fjórhjólum í kringum 4 mánuði á ári. Einkum er það þjónusta við skemmtiferðaskip og erlenda ferðamenn og eru seld mest 5 hjól í hverja ferð og með leiðsögumanni.

Ferðirnar hefjast í Æðartanga og þaðan er farið inn í fjörð og þaðan uppá Breiðadalsheiði, með viðkomu í Tunguskógi. Gestir fá að upplifa mikla náttúrufegurð og útsýni. Áætlanir fyrir sumarið gera ráð fyrir hátt í 1000 farþega segir í erindinu.

Ísafjarðarbær hefur tilkynnt fyrirtækinu að þessa leið megi ekki fara lengur og er búið að setja upp skilti sem bannar umferð vélknúinna ökutækja. Er bent á að fara hraðbrautina á fjórhjólunum.

Bréfritarar telja það öryggismál og að lágmarki beri akstur á þjóðveginum. Auk þess sé í ýmsum sveitarfélögum dæmi um samnýtingu slóða, þar sem slóði getur hentað fyrir hestamenn, göngufólk, hjólreiðafólk og vélknúnin ökutæki , allt í senn og þarf ekki eitt að útiloka annað.

Var því farið fram á leyfi til þess að samnýta þennan slóða með öðrum vegfarendum. Jafnframt var farið fram á fund með nefndinni til þess að fara yfir erindið.

Í afgreiðslu nefndarinnar segir að erindinu sé hafnað, um er að ræða göngustíg skv. Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020, umferð vélknúinna ökutækja er bönnuð skv. umferðarlögum.

DEILA