Ísafjarðarbær: bæjarráð í sumarfrí

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. mynd: isafjordur.is

Rólegt er yfir störfum kjörinna fulltrúa í Ísafjarðarbæ þessar vikurnar. Bæjarstjórn samþykkti 20. júní sumarfrí í júlí og ágúst og mun ekki koma saman að nýju fyrr en5. september. Fól bæjarstjórnin bæjarráði heimild til þess að taka fullnaðarákvörðun í málum á meðan. Síðan hefur bæjarráðið, sem heldur fundi vikulega, haldið þrjá fundi og fellt niður þrjá. Síðasti fundur var 15. júlí sl.

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs, segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að líklega verði ekki næsti fundur fyrr en 19. ágúst, en gæti þó orðið 12. ágúst, það fari eftir eðli og fjölda mála. Það munu því líða 4 – 5 vikur milli funda í bæjarráði á þeim tíma sem það fer með hlutverk bæjarstjórnar og yfir aðalframkvæmdatímann.

Í Bolungavík er bæjarstjórnin einnig í sumarfríi í júlí og ágúst og í Vesturbyggð er sumarfrí bæjarstjórnar fra 20. júní til 20. ágúst. Í báðum sveitarfélögum hefur bæjarráð haldið reglubundna fundi áfram.

DEILA