Ísafjarðarbær áfram með í FabLab í Menntaskólanum

Frá undirritun samningsins um Fablab 2018. Mynd: Aðsend.

Ísafjarðarbær verður áfram með í rekstri FabLab í Menntaskólanum á Ísafirði. Bæjarráð telur mikilvægt að gerður verði nýr samningur um reksturinn fyrir árslok og segir jafnframt mikilvægt að auka tengsl við grunnskóla Ísafjarðarbæjar og styrkja þjálfun og kennslu leiðbeinenda þar.

Samningur íslenska ríkisins, Menntaskólans á Ísafirði, Bolungarvíkurkaupstaðar, Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps um rekstur Fab lab-smiðjunnar er útrunninn og beðið er eftir nýjum samningi um rekstur smiðjunnar með aðkomu ráðuneyta barna- og menntamála annars vegar og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar hins vegar. Vonast er til að fljótlega verði gerður nýr samningur um rekstur smiðjunnar.

Menntaskólinn hefur nú þegar sent erindi á háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar um að gengið verið frá slíku samningi.

Þrátt fyrir að samningurinn sé útrunninn hefur Menntaskólinn sent út reikninga til Ísafjarðarbæjar vegna reksturs Fab labs-smiðjunnar. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti að greiða reikninginn.

Framlengt FabLab um þrjú ár

Í gær tilkynntu Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, að ákveðið hafi verið að framlengja samninga ráðuneytanna við Fab Lab-smiðjurnar á Íslandi um þrjú ár. Samhliða verða framlögin hækkuð um samtals 91 m.kr. á samningstímabilinu, eða úr 324 m.kr. í 415 m.kr. á næstu þremur árum. Ákveðið hefur verið að endurnýja samningana og er unnið að því í samtali við þessa samstarfsaðila, en 11 smiðjur eru styrktar með þessum hætti hringinn í kringum landið. 

DEILA