Hvalárvirkjun: krafa ríkisins tefur virkjunarframkvæmdir

Hvalárfoss. Mynd úr matsskýrslu Vesturverks um Hvalárvirkjun.

Hindrunum í vegi fyrir framkvæmdum við vatnsaflsvirkjun Hvalár fer fækkandi og er að komast skriður á málið að nýju eftir að málið stöðvaðist árið 2020. Í yfirliti frá Vesturverk eru rakin helstu atriðin.

Tillaga Náttúrfræðistofnunar ríkisins um friðun fossa sem send var þáverandi umhverfisráðherra Guðmundi Inga Guðbrandssyni hefur verið lögð til hliðar. Friðun jarðarinnar Dranga hefur ekki áhrif á virkjunarframkvæmdir og dómur er genginn í Landsrétti í máli nokkurra eigenda Drangavíkur sem töldu sig eiga stóran hluta af landi Engjaness og Ófeigsfjarðar. Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóm Vestfjarða og töpuðu stefnendur málinu. Það þýðir að samningar landeigenda Engjaness og Ófeigsfjarðar sem höfðu samið við Vesturverk og heimilað fyrirtækinu virkjun Hvalár standa. Að öðrum kosti hefðu vatnsréttindin færst í hendur aðila sem eru andvígur virkjuninni. Mögulegt er að reynt verði að fá leyfi til þess að skjóta málinu til Hæstaréttar og skýrist það fljótlega hvort það verði reynt og síðan hvort Hæstiréttur fellst á að taka málið fyrir. Niðurstaða á báðum dómstigum var afgerandi og höfðu stefnendur ekki erindi sem erfiði.

Ríkið tefur

Eitt mál er þó enn óútkljáð sem hefur áhrif á framvindu virkjunaráforma. Það er krafa ríkisins fyrir sérstakri Óbyggðanefnd um að verulegur hluti jarðanna Engjaness og Ófeigsfjarðar verði dæmd sem þjóðlenda. Fyrir liggur úrskurður Óbyggðanefndar frá 2019 um að Drangajökull sé þjóðlenda. Hins vegar fór Óbyggðanefnd fram á að tekið yrði fyrir að nýju að úrskurða um land sunnan og austan við Drangajökul og taldi nefndin ekki ljóst að það væri eignarland. Alþingi samþykkti árið 2020 sérstök lög að frumkvæði þáverandi forsætisráðherra ,sem heimiluðu að taka upp nokkur álitamál sem Óbyggðanefndin benti á og þar með þetta. Fjármála- og efnahagsráðherra skilaði kröfum ríkisins í byrjun árs 2021 og aftur þeim óbreyttum í nóvember 2022. Gerir ríkið nú kröfu um stórt landssvæði austan og sunnan Drangajökuls sem þjóðlendu.

Kort sem afmarkar nýju kröfur ríkisins nefnt svæði austan og sunnan Drangajökuls.

Landeigendur umræddra jarða og Vesturverk sem handhafi vatnsréttinda að Eyvindarfjarðarár gera þá kröfu til sérstöku Óbyggðanefndarinnar að kröfum ríkisins verði vísað frá. Telja þeir að þar sem ríkið hafi ekki gert kröfu til þess að lands sem þjóðlendu í fyrri kröfu um málið hafi það þar með viðurkennt eignarréttindi landeigenda. Þá hafi Óbyggðanefnd í úrskurðinum frá 2019 ekki gert athugasemd við kröfugerð ríkisins sem sé forsenda þess að heimila endurupptöku.

Kröfur aðila í málinu lágu fyrir í byrjun árs 2024 og vænta má þess að úrskurður verði kveðin upp á næstu mánuðum.

DEILA