Heilbrigðiseftirlit: 112 bílar sem á að fjarlægja

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í vor og sumarbyrjun hefur heilbrigðiseftirlit Vestfjarða lagt áherslu á umhverfiseftirlit. Í upplýsingum Antons Helgasonar, sem sendar voru til sveitarfélaga, kemur fram að númerslausir bílar og bílhræ sé sá úrgangur sem fólk skilur helst eftir á almannafæri.

„Við vitum ekki hvað er að – er þetta aðskilnaðarkvíði sem hrjáir fólk eða ofmat á eigin getu til viðgerða. Við límum rauða miða á þá bíla sem eru á lóðum sveitarfélaga og almannafæri en fyrst gulan og síðan rauðan á bíla á einkalóðum og lóðum fyrirtækja.“

Flestir eigendur bregðast við ábendingu heilbrigðiseftirlts og fjarlægja eða koma bílum í úrvinnslu eða förgun. En einstaka einstaklingar hafa verið með leiðindi við verktaka sem á að sjá um að fjarlægja, „það er illt til afspurnar ef leita þarf út fyrir svæðið að verktökum í þessi þrifaverk. Samtals erum við búnir að líma á 112 bíla nú í vor og sumarbyrjun.“

Bílaálímingar eftir þéttbýlisstöðum:
Ísafjörður 26
Patreksfjörður 6
Flateyri 31
Þingeyri 7
Strandabyggð 22
Bolungarvík 22
Hnífsdalur 4
Það er búið að líma á 112 bíla og af þeim eru 68 í Ísafjarðarbæ. Tekið er fram að verkefnið er rétt að byrja.

DEILA