Hafró: almennt fáir strokulaxar ganga í ár nema í fyrra

Í nýútkominni skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um vöktun á áhrifum sjókvíaeldis á íslenska laxastofna árið 2023 kemur fram að almennt eru það fáir strokulaxar sem ganga upp í ár miðað við mörg undanfarin ár en að árið 2023 varð mikil aukning vegna sleppingar á eldislöxum úr kví í Patreksfirði þar sem um 35% laxanna voru kynþroska. Um 420 laxar úr því stroki veiddust um haustið.

Á tímabilinu 2017-2022 höfðu um 47 laxar af áætluðum 110 þúsund strokufiskum veiðst í ám og borist Hafrannsóknastofnun sem er aðeins 0,04%, en haustið 2023 veiddust 421 fiskar í ám með uppruna úr Kvígindisdal eða um 12% af áætluðu stroki.

Á árabilinu 2014 til 2022 bárust Hafrannsóknastofnun (Veiðimálastofnun 2014-2016) 134 strokulaxar, að meðaltali tæplega 15 árlega. Flestir bárust árið 2014 (67 eldislaxar skv. nýjum og eldri erfðarannsóknum, 71 ef litið er til útlitsþátta), næst flestir árið 2022 (28), færri önnur ár og enginn árið 2016. Í tveimur af níu árum á þessu tímabili bárust fleiri en 10 strokulaxar til greiningar.

Í áhættumati Hafrannsóknarstofnunar fyrir erfðablöndun kemur fram að gert er ráð fyrir að svonefndur göngustuðull, það er fjöldi strokufiska sem ganga í ár fyrir hver 1000 tonn sem framleidd eru. sé 2,2. Það þýðir til dæmis að fyrir 45 þúsund tonna ársframleiðslu megi búast við 99 strokufiskum upp í ár. Í Noregi er þetta hlutfall talið vera 14,4 eða rúmlega sexfalt hærra en hér á landi.

Að frátöldu síðasta ári hefur göngustuðullinn frá 2014 verið langt undir þessu mati.

Birtar eru upplýsingar um fjölda eldisfiska í einstakar ár á síðasta hausti. Í Laugardalsá komu 6 eldislaxar en 197 villtir laxar. Hrygningarstofninn er sagður vera 128 fiskar. Af eldislöxunum voru 2 drepnir. Í ána gengu þá 4 eldislaxar sem eru 2% af hrygningarstofninum. Hafrannsóknarstofnun undirstrikar í áhættumatinu um erfðablöndun að erfðablöndun verði mun lægri þar sem hrygningargeta eldislaxa sé mun minni en hjá villtum laxi.

Í Langadalsá gaf teljari upp 62 villta laxa sem gengu upp í ána í fyrra og 10 eldislaxa. Af þeim voru 4 drepnir. Ekki eru gefnar upplýsingar um stærð hrygningarstofnsins.

Í báðum þessum ám eru teljarar og hægt að loka fyrir uppgöngu eldislaxa, sem var gert og voru þeir fangaðir ýmist í fiskvegum eða neðan þeirra.

Hafrannsóknarstofnun segir að talsverður árangur hafi náðst með mótvægisaðgerðum sem voru til þess að fjarlægja eldislaxa úr ám í haust. Aðgerðirnar fólust í heimild til handa veiðifélögum til veiða sem beindist að eldislöxum þótt komið væri fram yfir lok veiðitíma, ásamt því að fiskvegum var í sumum tilfellum lokað. Auk þess voru fengnir sérfræðingar í yfirborðsköfun frá Noregi sem leituðu uppi eldislaxa og fjarlægðu úr ám.

4% seiða blönduð

Einnig kemur fram í skýrslunni að árið 2021 hafi verið tekin 3.194 laxasýnum úr 64 ám hringinn í kringum landið. Greinst hafi ný erfðablöndun hjá 51 seiði í 12 ám og og eldri erfðablöndun hjá 79 seiðum í 16 ám.

Samtals eru þetta 130 sýni með blöndun af 3.194 eða 4% sýnanna.

Á Vestfjörðum greindist ný erfðablöndun í nokkrum ám þar sem hún hafði áður greinst; í Botnsá í Tálknafirði, Sunndalsá í Arnarfirði, Hraundalsá í Ísafjarðardjúpi og Staðará í Steingrímsfirði. Ný erfðablöndum greindist einnig í ám þar sem slík blöndun hafði ekki áður greinst; í Dynjandisá og Mjólká í Arnarfirði, Botnsá í Dýrafirði og í Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi.

DEILA