Hærra brautskráningarhlutfall í framhaldsskólum

Rúm 64% nýnema á framhaldsskólastigi árið 2018 höfðu útskrifast árið 2022 samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

Brautskráningarhlutfallið, þ.e. hlutfall nýnema sem hefur útskrifast, hefur ekki mælst hærra í tölum Hagstofunnar sem ná aftur til nýnema ársins 1995.

Brotthvarf úr námi hefur verið nálægt 20% síðustu þrjú ár en 20,3% nýnema haustið 2018 höfðu hætt námi fjórum árum síðar. Rúmlega 15% nýnema haustsins 2018 voru enn í námi án þess að hafa útskrifast fjórum árum síðar og hefur það hlutfall ekki verið lægra.


Brautskráningarhlutfall var hæst á meðal nemenda sem fæddir eru erlendis og eiga foreldra sem báðir eru fæddir á Íslandi en rúm 80% þeirra sem hófu nám haustið 2018 höfðu útskrifast árið 2022.

Alls höfðu 67% þeirra sem hafa engan erlendan bakgrunn útskrifast og rúm 64% þeirra sem fæddust erlendis og eiga eitt foreldri sem fætt er erlendis. Þá höfðu tæp 61% þeirra sem eru fæddir á Íslandi en eiga foreldra sem báðir eru fæddir erlendis útskrifast og 57% þeirra sem fæddust á Íslandi og eiga eitt foreldri fætt erlendis.

Lægst var brautskráningarhlutfallið á meðal innflytjenda, þ.e. þeirra sem fæddust erlendis og eiga báða foreldra fædda erlendis, en tæplega 41% þeirra höfðu útskrifast fjórum árum eftir upphaf náms. Brautskráningarhlutfall hefur farið hækkandi á meðal innflytjenda en það er enn mun lægra en á meðal nýnema með íslenskan bakgrunn.

DEILA