Forstjóri Mast: rangfærsla að fiskeldi ógni siglingaöryggi

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar.

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar segir það sé í besta falli rangfærsla að fiskeldi ógni siglingaöryggi í Ísafjarðardjúpi. Ásakanir um slíkt falli um sjálft sig þar sem skilyrði rekstrarleyfisins séu þannig að öryggið sé tryggt.

Þá segir hún alvarlega vegið að heiðri starfsmanna stofnunarinnar með ásökunum um mútuþægni.

Svör Hrannar í heild:

„Í leyfi sem var gefið út varðandi fiskeldi við Eyjahlíð og Óshlíð voru sett ströng skilyrði sem fyrirtækið verður að uppfylla til að tryggja öryggi siglingaleiða. Til að mynda þá er leyfið gefið út með þeim fyrirvara að jaðar sjókvíaeldisstöðvanna skulu ekki vera nær mörkum hvíts ljósgeira vitaljós en 50 m í Eyjahlíð og 200 m í Óshlíð eða þá að aðrar mótvægisaðgerðir verða til þess að eldið séu utan hvíts geisla. Á meðan ekki er búið að breyta leiðsögukerfi siglinga um Ísafjarðardjúp, þá er það fyrirtækisins að vinna út úr því hvernig þeir geti nýtt leyfið. Það er því í besta falli rangfærsla að halda því fram að fiskeldi muni ógna siglingaröryggi eða að Matvælastofnun sé að vinna að hagsmunum fiskeldisfyrirtækja fram yfir öryggi og lagaramma.

Til að svara ásökunum um mútuþægni starfsmanna Matvælastofnunar þá tel ég alvarlega vegið að heiðri starfamanna stofnunarinnar þar sem skýrt er að hlutverk stofnunarinnar er að gefa út rekstrarleyfi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum til fiskeldisfyrirtækja. Með þeim skilyrðum sem hafa verið sett í viðkomandi leyfi, þá erum við vissulega að tryggja það að það sé fylgt eftir öllum öryggisþáttum.

Varðandi athugasemd um persónulega ábyrgð starfsmanna Matvælastofnunar, þá er það ávallt á ábyrgð fyrirtækisins að tryggja það að þeirra starfsemi sé innan þess ramma sem þeim er sett og búið er að setja ströng skilyrði inn í leyfin er varðar siglingaröryggi. Að því má því áætla að það fara aldrei út kvíar í sjó sem myndu á einhverjum tíma ógna siglingaröryggi á þessum stað. Því fellur þetta um sjálft sig að mínu mati.“

DEILA