Ferðafélag Ísfirðinga: Vatnsdalur – 1 skór

Laugardaginn 6. júlí

Skráning óþörf, bara mæta.

Fararstjórn: Elva Björg Einarsdóttir frá Seftjörn á Barðaströnd, höfundur bókarinnar Barðastrandarhreppur – göngubók. Mæting kl. 8.00 við Bónus á Ísafirði. Farið á einkabílum að bílastæði við Kofanes í Vatnsfirði (inn afleggjara í botni Vatnsfjarðar) um kl. 10.00. Sameinast í bíla og ekið að þjóðhátíðarsvæðinu innan vatnsins. Gengið þaðan eftir krókóttum og mishæðóttum göngustígum inn í dalbotninn. Fylgst verður með fjölbreyttu plöntu- og dýralífinu í gróðursælum dalnum og hinum náttúrufyrirbærunum sem eru stærri í sniðum, svo sem fossum og giljum. Dalbotninn er magnaður staður. Sagðar verða sögur þar sem landnám Íslands og þjóðhátíðin árið 1974 bera eflaust hæst, auk friðunar fjarðarins í kjölfar hátíðarinnar.

Vert er að hafa með sér flugnanet. Mögulega þarf að vaða yfir einn læk. Oftast má þó stikla eða stökkva yfir hann. Vegalengd, fram og til baka frá bílastæði: 6 km, göngutími: um 5 klst., hækkun: lítil sem engin.

Þátttökugjald er ekkert en æskilegt að þáttakendur taki þátt í bensínkostnaði þiggi þeir far með farkosti annarra.

DEILA