Endurnýjun á tveimur deildum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Ísafirði

Nýlega lauk gagngerum breytingum og endurnýjun á fæðingardeild og húsnæði geðheilsuteymis fullorðinna.

Fæðingardeild

Deildin var öll máluð, öll húsgögn voru endurnýjuð ásamt skrautmunum. Nýtt fæðingarrúm er á fæðingarstofu ásamt nýju endurlífgunarborði barna.

Allt verklag hefur verið tekið í gegn og uppfært ásamt því að þjónustan hefur verið efld eins og til dæmis er nú boðið upp á regluleg fæðingarfræðslunámskeið, getnaðarvarnarráðgjöf, heilsusamtöl, nálastungur og ýmislegt annað.

Á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði stendur konum til boða samfelld þjónusta ljósmóður í meðgönguvernd, fæðingu og sængurlegu. Einnig má leita til ljósmóður í tengslum við brjóstagjöf frá fæðingu og út brjóstagjafatímabilið. Áhersla er lögð á vandaða og persónulega þjónustu og aðstaða fæðingardeildarinnar gerir okkur kleift að bjóða upp á samveru beggja foreldra og barns fyrstu dagana eftir fæðingu.

Við deildina starfa þrjár ljósmæður í fastri stöðu.

Eftirtaldir aðilar lögðu deildinni lið og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir:

Endurskoðun Vestjarða, Þrymur, Verkalýðsfélag Bolungarvíkur, Verkvest, Oddfellowstúkan Þórey, Kvenfélagið Hvöt, Kvenfélagið Von, Kvenfélagið Framsókn og Kvenfélagið Ársól.

Geðheilbrigði

Húsnæði geðheilsuteymis fullorðinna hefur allt verið tekið í gegn og endurnýjað en teymið flutti alla sína starfsemi á þriðju hæð HVest á Ísafirði þar sem áður var gistivist.

Aðstaðan er öll hin glæsilegasta og mikill kostur að hafa alla starfsemi teymisins á sama stað og hafa biðstofu sem eingöngu er fyrir skjólstæðinga teymisins.

Geðheilsuteymi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hefur verið virkt frá 1. apríl 2020. Þjónusta teymisins er fyrir einstaklinga 18 ára og eldri sem glíma við andlega vanlíðan og/eða eru greindir með geðsjúkdóm og þurfa á þverfaglegri aðstoð ásamt þéttri eftirfylgd að halda.

Í teyminu starfa félagsráðgjafi, sálfræðingur, iðjuþjálfi og áfengis- og vímuefnaráðgjafi í fullu starfi auk þess sem lismeðferðarfræðingur og læknir eru í hlutastarfi við teymið.

DEILA