Drangavík : Hvalárvirkjun undirrót landakröfunnar

Svona var niðurstaða Landsréttar um mörk jarðanna.

Hluti landeigenda jarðarinnar Drangavíkur hefur farið fram á það við Hæstarétt að hann heimili áfrýjun á dómi Landsréttar frá júní 2024 þar sem landakröfum þeirra var hafnað en samþykkt krafa eiganda jarðarinnar Engjaness um landamörk jarðanna.

Árið 2020 höfðuðu allmargir eigendur jarðarinnar Drangavík, handhafar 74,5% hluta jarðarinnar, mál á hendur eigendum nærliggjandi jarða Engjaness, Ófeigsfjarðar og Laugalands við Ísafjarðardjúp og sameigendum sínum að Drangavík, sem fara með 25,5% hlut, og kröfðust þess að fallist yrði á að jörðin væri allmiklu stærri en viðurkennt var.

Héraðsdómur Reykjavík hafnaði kröfunum í júlí 2022 og féllst jafnframt á gagnkröfur eiganda Engjaness um landamörkin og dæmdi stefnendur til þess að greiða allháar fjárhæðir í málskostnað.

Dómnum var áfrýjað til Landsréttar en þrír af landeigendum Drangavíkur ákváðu að una dómnum og stóðu ekki að áfrýjuninni. Voru það því eigendur að 61% hlut jarðarinnar sem áfrýjuðu.

Landsréttur kvað upp sinn dóm í síðasta mánuði og staðfesti að öllu leyti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Féll nú málskostnaðurinn á færri stefnendur og varð því hlutur hvers og eins hærri en í héraðsdómi.

Í erindi sínu til Hæstaréttar vekja stefnendurnir athygli á fyrirhugaðri Hvalárvirkjun:

„Í þessu sambandi er sérstaklega vísað til að undirrót máls þessa er fyrirhuguð Hvalárvirkjun. Eru áfrýjendur andstæðingar þeirra virkjunaráforma en aðrir meðeigendur þeirra hlynntir þeim.“

Stefnendur andvígir Hvalárvirkjun

Í fréttatikynningu frá apríl 2020 segja stefneindur í málinu að þeir telji að fyrirhuguð Hvalárvirkjun nái langt inn á eignarland sitt í Drangavík. „Nýting vatnasviðs Eyvindarfjarðarvatns er ein af forsendum Hvalárvirkjunar en vatnið telja eigendur Drangavíkur vera í sínu landi. Þeir hafa lýst sig andvíga virkjuninni og ætla ekki að heimila nýtingu vatnsréttinda jarðarinnar í þágu hennar.“

Fer ekki á milli mála að landakröfurnar og málshöfðunin er beinlínis í þeim tilgangi gerð að koma í veg fyrir Hvalárvirkjun. Liðin eru rúmlega fjögur ár frá upphafi þessarar vegferðar. Tvö dómsstig hafa hafnað með öllu landakröfunum og jafnframt staðfest landamörk eiganda Engjaness og Ófeigsfjarðar, en þeir fara með vatnsréttindi og hafa samið við Vesturverk um nýtingu vatnsins til virkjunar.

Hæstiréttur gefur aðilum máls frest til 12. ágúst til þess að bregðast við erindinu um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar og mun að þeim tíma liðnum taka afstöðu til þess. Verði áfrýjun hafnað er málinu loks lokið, annars tekur við málsmeðferð fyrir Hæstarétti.

Fyrir Óbyggðanefnd stendur ríkið fyrir endurteknum málarekstri og krefst þess nú að verulegur hluti landsins sunnan og austan Drangajökuls verði lýst þjóðlenda og þar með verði eignarhaldið á landinu og vatnsréttindunum úr höndum landeigenda. Beinist krafan einkum að sömu jörðum Ófeigsfirði og Engjanesi. Verði krafan samþykkt verða virkjunaráformin að nýju í uppnámi. Landeigendur gætu borið málið fyrir dómstóla en það tæki væntanlega nokkur ár.

Ríkið gæti hugsanlega lýst því yfir að það myndi láta gerða samninga um nýtingu vatnsréttindanna standa og þannig greitt fyrir virkjunaráformum þótt málaferli stæðu yfir. En ekkert er vitað um afstöðu fjármálaráðherra eða forsætisráðherra sem fara með málin fyrir hönd ríkisins.

Hjá Óbyggðanefnd fengust þau svör að stefnt sé að uppkvaðningu úrskurðar í haust.

Í besta falli verða þessi deilumál úr sögunni á næstu mánuðum. Það gerist ef Hæstiréttur hafnar áfrýjun og ef Óbyggðanefnd hafnar þjóðlendukröfum ríkisins og ríkið ákveði að una þeim dómi. Það fyrra gæti legið fyrir í ágúst/september og það síðara um svipað leyti eða aðeins síðar.

-k

Svona voru landakröfur hluta eigenda Drangavík samkvæmt korti Sigurgeirs Skúlasonar landfræðings.

DEILA