Bolvíkingur með fyrsta makrílfarminn

Birkir Hreinsson skipstjóri. Neskaupstaður í baksýn. Myndir: Samherji.

Uppsjávarskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA 11, kom til Neskaupstaðar í morgun með rúmlega 850 tonn af makríl, sem er fyrsti farmur skipsins á n‎ýhafinni makrílvertíð.

Aflinn var veiddur í Síldarsmugunni svokölluðu. Undanfarin ár hafa uppsjávarskip Samherja og Síldarvinnslunnar haft með sér samstarf um veiðar, sem skilað hefur góðum árangri. Börkur NK og Vilhelm Þorsteinsson voru að veiðum í Síldarsmugunni.

34 klukkustunda sigling til Neskaupstaðar

Bolvíkingurinn Birkir Hreinsson er skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni og hann segir í viðtali á vefsíðu Samherja að um sé að ræða ágætis hráefni.

Löndun í Neskaupstað

„Makríllinn er viðkvæmastur á þessum árstíma og fitnar eftir því sem líður á vertíðina. Stærðin er um og yfir 400 grömm, sem hentar ágætlega til manneldis. Siglingin úr Síldarsmugunni tók 34 klukkustundir, enda siglingaleiðin um 400 sjómílur og þá skiptir miklu máli að kælibúnaðurinn sé góður.“

Þokkalega bjartsýnn á framhaldið

Birkir segir að löndun lokinni verði væntanlega haldið á makrílveiðar í íslenskri lögsögu suð-austur af landinu. Þangað sé um eitt hundrað sjómílna sigling.

„Já, já, það var góð tilfinning að sigla inn Norðfjörðinn í morgun í blíðskaparveðri. Þegar vertíð er að hefjast er alltaf viss spenna. Ég er þokkalega bjartsýnn á framhaldið, áhöfnin er þaulvön og skipið er vel útbúið á allan hátt,” segir Birkir Hreinsson skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA 11.

Áhöfn Vilhelms Þorsteinssonar: Efri röð f.v: Stefán Pétur Hauksson yfirvélstóri. Birkir Hreinsson skipstjóri. Björn Már Björnsson 1. stýrimaður. Jóhannes Páll Jónsson matsveinn. Kjartan Hjaltason 2.stýrimaður. Fremri röð f.v.: Ægir Þormar Pálsson bátsmaður. Jóhann Valur Ólafsson netamaður. Á myndina vantar Níels Kristinn Benjamínsson 1. vélstjóra, sem var í koju.
Kort af siglingu Vilhelms Þorsteinssonar: Skipið hélt í Síldarsmuguna frá Skagen í Danmörku og þaðan til Neskaupstaðar.
DEILA