Bolungavík: húsfyllir á tónleikum með lögum Ólafs Kristjánssonar

Ólafur á sviðinu á tónleikunum. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Lokaatriðið á velheppnuðum Markaðsdögum í Bolungavík um helgina voru tónleikar í Félagsheimili Bolungavíkur með lögum Ólafs Kristjánssonar fyrrverandi skólastjóra Tónlistarskóla Bolungavíkur og einnig fyrrverandi bæjarstjóra.

Leikin voru jasslög sem eru á nýútkomnum diski „Bjórkvöld með vinum“. Hljómlistarmenn voru Ísfirðingarnir Halldór Smárason og Bjarni Sveinbjörnsson og á trommunum var Pétur Grétarsson. Ólafur Kristjánsson, sem er á 89. aldursári fór upp á sviðið í lokin og lék tvö lög með tríóinu. Seinna lagið átti svo sannarlega heima á þessum stað en það var Í Bolungavíkinni er björgulegt lífið og ekki vantaði neitt upp á undirtektir tónleikagesta.

Húsfyllir var á tónleikunum og var tónlistarmönnunum og Ólafi Kristjánssyni vel og lengi fagnað.

Félagsheimilið var þétt setið.

DEILA