Bíldudalsskóli: 20% aukning nemenda

Vesturbyggð hefur ákveðið að byggja nýjan skóla á Bíldudal í stað byggingarinnar að Dalbraut 2 sem er á hættusvæði. Samkomulag var gert í vor við ríkið um að Vesturbyggð fengi 137 m.kr. greiðslu gegn því að færa starfsemi grunnskólans af hættusvæði og finna henni annan viðeigandi stað.

Nýr Bíldudalsskóli við Hafnarbraut 5 verður samrekinn leik – og grunnskóli fyrir u.þ.b. 36 nemendur, ásamt frístund. Nýbyggingin verður reist með það fyrir augum að nýtast á marga vegu og þjóna samfélaginu á Bíldudal. Um ræðir áfanga eitt þar sem framtíðaráform eru um að byggja við skólann samhliða aukningu nemenda.

Áfangi eitt gerir ráð fyrir 20 % aukningu nemenda. Áætlaður fjöldi nemenda á leikskóla er 12-13 nemendur, áætlaður fjöldi grunnskólanemenda er 24 nemendur, 8 á hverju stigi. Áætlaður fjöldi starfsmanna er 12 -15. Byggingin ber fleiri fjölda gunnskólanemenda eða allt að 50 nemendur á grunnskólastigi, alls 18 manns í hverju kennslurými miðað við núverandi skipulag.

Byggingin verður 550 fermetrar og er hefðbundin timburgrinda bygging á einni hæð.

Heimastjórn Arnarfjarðar tók málið fyrir á fyrsta fundi sínum sem var 10. júlí sl.

Heimastjórnin lýsti áhyggjum sínum af því að rými fyrir leikskóla væri ekki nóg eins og það er sett fram á teikningunum. Eins hefur heimastjórnin áhyggjur af því að bygging áfanga 2 dragist á langinn og þangað til verði þrengt að aðstöðu leikskólans.

Heimastjórnin óskar eftir rökum fyrir því að ekki verði farið í byggingu á áfanga tvö strax þar sem útlit er fyrir að aðstaða leikskóla sé lítil og ekki hentug fyrir slíka starfsemi eftir því sem hægt er að lesa úr teikningunum.

Heimastjórn Arnarfjarðar hvetur til að verkefnið verði skoðað með tilliti til þessara ábendinga og að tryggt verði að rými í nýjum skóla rúmi alla þá starfsemi sem þar er ætlast til að sé staðsett. Brýnt er að horfa til þess strax að hægt sé að koma til móts við þá þörf sem mun skapast fjölgi börnum á Bíldudal.

DEILA