Besta deildin: KA í heimsókn á sunnudaginn

Á sunnudaginn verður heimaleikur í Bestu deild karla í knattspyrnu á Kerecisvellinum á Torfnesi þegar KA frá Akureyri kemur í heimsókn og hefst leikurinn kl 14.

Er þetta fjórði heimaleikur Vestra í deildinni, tveir fyrstu töpuðust en um síðustu helgi gerði Vestri jafntefli við Breiðablik frá Kópavogi.

Greinilegt er að liðið er að ná betri tökum á því að spila á nýja gervigrasvellinum og sýndi það í leiknum gegn Breiðablik að það getur staðið bestu liðunum í deildinni á sporði.

Leikurinn gegn KA er afar þýðingarmikill þar sem Akureyringarnir eru aðeins með einu stigi meira en Vestri eftir þrettán umferðir af 22 og eru í 10. sæti og Vestri í 11. sæti. Með sigri myndi Vestri fara upp fyrir KA og upp úr fallsæti.

KA er hins vegar sýnd veiði en ekki gefin. Liðið hefur byrjað brösuglega en vann Val um daginn í undanúrslitum bikarkeppninnar og sýndi þar að liðið er gott og getur eins og Vestri velgt öllum liðum undir uggum.

Nú er lagt fyrir Vestfirðinga að fjölmenna á völlinn á sunnudaginn og hvetja okkar menn til fyrsta sigurs á heimavelli.

DEILA