Arctic Fish og Sjótækni gera fjögurra ára samning

John Gunnar Grindskar og Sif Huld Albertsdóttir.

Sjótækni ehf. og laxeldisfyrirtækið Arctic Fish ehf. hafa gert langtímasamning um áframhaldandi þjónustu Sjótækni við fiskeldi Arctic Fish á Vestfjörðum. Samningurinn er til fjögurra ára með framlengingarákvæðum.

Sjótækni mun veita Arctic Fish þjónustu er snýr að þrifum á eldisbúnaði, köfun og reglubundnum skoðunum. Jafnframt er hefur Arctic Fish aðgang að vinnubátum Sjótækni í ýmis verkefni og þá mun Sjótækni hafa til staðar viðbragðsteymi kafara sem hægt er að kalla út með skömmum fyrirvara.

„Það er ánægjulegt fyrir félagið að geta keypt þessa þjónustu í heimabyggð. Við viljum taka þátt í því að byggja upp öfluga og metnaðarfulla þjónustuaðila í nærsamfélaginu. Með því verður til nauðsynleg þekking á svæðinu til að þjónusta eldið okkar og annarra á framúrskarandi hátt með öryggi starfsmanna og góðri umgengni um búnað og fiskinn okkar að leiðarljósi. Sjótækni hefur sýnt metnað í að fjárfesta í búnaði til að þjónusta okkur og í fyrirtækinu er að finna mikla þekkingu á þörfum okkar þegar kemur að smitvörnum sem og þjónustunni sem félagið veitir. Auk þess eru gæði þjónustunnar orðin samkeppnishæf við það sem best gerist, það skiptir miklu máli “ segir John Gunnar Grindskar, framkvæmdastjóri eldis hjá Arctic Fish.

„Við erum stolt af því að gera langtímasamning við Arctic Fish. Það er metnaður okkar í Sjótækni að vaxa með þeim fyrirtækjum sem starfa í greininni. Við höfum til fjölda ára veitt fyrirtækinu ýmsa þjónustu og það er gott að finna fyrir ánægju og trausti með þjónustu okkar. Samhliða þessum samningi munum við fjárfesta í vinnubát með öflugum tækjabúnaði sem mun sjá um þvott á búnaði og skoðun.“ Þá mun þessi samningur styrkja félagið til frekari vaxtar og framþróunar á Íslandi, segir Kjartan J. Hauksson, framkvæmdastjóri og annar af tveimur eigendum Sjótækni.

Sjótækni gerir út báta, vinnuskip, pramma og þjónustubíla og hefur yfir að ráða mikið af sérhæfðum tækjum og búnaði fyrir fiskeldið. Höfuðstöðvar Sjótækni eru á Tálknafirði og útibú á Ísafirði og í Reykjavík. Hjá fyrirtækinu vinna yfir 40 manns.

Vinnubáturinn Valur.

DEILA