Aflamark Byggðastofnunar forsenda fiskvinnslu á Hólmavík

Frá Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Byggðastofnun telur að úthlutun upp á 500 þorskígildistonn á yfirstandandi fiskveiðiári til Hólmavíkur hafi þegar leitt til þess að heimaaðilar hafa komið upp fiskvinnslu á staðnum.

Eins og kunnugt er var rækjuvinnslu hætt á Hólmavík í sumarbyrjun 2023 og misstu þá 20 manns vinnuna. Í framhaldi af erindi frá Strandabyggð ákvað Byggðastofnun að auglýsa eftir samstarfsaðilum um nýtingu á allt að 500 þorskígildistonnum á þessu fiskveiðiári. Í vor voru svo auglýst 500 tonn til næstu sex fiskveiðiára.

Sú hvatning sem þessi úthlutun felur í sér hefur nú leitt til þess að stærstur hluti útgerðaraðila á staðnum hefur sameinast um nýtingu þessa aflamarks til veiða og vinnslu.

Úthlutunin er skilyrt vinnslu á staðnum og þannig er stuðlað að því að sem stærstur hluti virðiskeðjunnar sé staðsettur í byggðarlaginu. Eins og fram hefur komið í Fiskifréttum eru þegar 12 starfsmenn í vinnslunni auk þess sem úthlutunin styrkir stoðir útgerðar á staðnum.

DEILA