Plasttappar eru á meðal 10 algengustu plasthlutanna sem finnast á ströndum Evrópu að því er kemur fram í frétt Umhverfisstofnunar. Þeir valda miklum skaða á lífríkinu. Þess vegna þurfa tapparnir nú að vera fastir við flöskuna.
Fuglar, fiskar og önnur sjávardýr halda oft að skærlitir tapparnir séu fæða. Dýrin geta drepist úr vannæringu ef þau innbyrða þá eða annað plast. Með því að tryggja að tapparnir haldist á flöskunum komum við í veg fyrir að þeir endi í náttúrunni og aukum líkurnar á því að þeir komist með í endurvinnslu.
Í gegnum EES samninginn hefur Ísland skuldbundið sig til þess að innleiða tilskipun Evrópusambandsins um einnota plastvörur.
Nú er komið að töppunum. Drykkjarílát og -umbúðir úr plasti fyrir allt að þrjá lítra af vökva verða að hafa tappa eða lok sem er áfast á meðan notkun vörunnar stendur.