707 m.kr. til tónlistarnáms og jöfnunar aðstöðu

Á Ísafirði er öflugur tónlistarskóli. Mynd: Tónís.

Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra hefur staðfest tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að úthlutun framlaga til eflingar tónlistarnáms og jöfnunar á aðstöðumun nemenda skólaárið 2024-2025.

Úthlutunin, sem nemur 707,1 milljónum króna, fer fram á grundvelli 2. mgr. 1. gr. reglna um framlög vegna hljóðfæranáms á framhaldsstigi og söngnáms á mið- og framhaldsstigi.

Ekki kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins skiptingin á framlögunum milli eflingu tónlistarnáms og jöfnunar á aðstöðu nemenda en helmingur fjárins 355 m.kr. rennur til Reykjavíkurborgar og aðrar 148 m.kr. til annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Utan höfuðborgarsvæðsins fer mest til Akureyrar eða 85 m.kr. Næst koma Árborg og Akranes með 11 m.kr. hvort sveitarfélag.

Tvö sveitarfélög á Vestfjörðum fá úthlutun. Ísafjarðarbæ fær 9 m.kr. vegna 9 nemenda og Bolungavíkurkaupstað er ætlað 266 þúsund krónur, tæplega þó.

DEILA