Skipstjórnarmenn: vilja hvalveiðar

Hvalveiðibátur á siglingu.

Félag skipstjórnarmanna samþykkti á aðalfundi sínum á föstudaginn áskorun til matvælaráðherra um að heim­ila nú þegar hval­veiðar. Vísað er til þess að hvalir éta árlega milljónir tonna af áti og fiskmeti og að stækkun hvalastofna hafi áhrif á fiskistofna með þeim afleiðingum að engin loðnuvertíð hafi verið síðasta vetur. Þá tapist milljarðar króna árlega í útflutningstekjum ef hvalveiðar verða ekki leyfðar.

Hafrannsóknarstofnun hefur ekki breytt ráðgjöf sinn og leggur til við mat­vælaráðherra að veidd verði 161 langreyður í sum­ar. Stofnunin segir að langreyði hafi fjölgað jafnt og þétt við Ísland frá upp­hafi hvala­taln­inga árið 1987 og hafi fjöldi dýra árið 2015 verið sé mesti frá því taln­ing­ar hóf­ust, en ráðgjöf­in bygg­ist á þeirri taln­ingu.

Einn ríkisstjórnarflokkanna, Framsóknarflokkurinn hélt flokksþing sitt í aprílmánuði og ítrekaði stefnu sína varðandi hvalveiðar. Þar segir:

„Framsókn styður sjálfbærar veiðar á hvölum á meðan þær eru heimilar samkvæmt lögum. Líkt og með aðrar atvinnugreinar þarf að tryggja fyrirsjáanleika í atvinnugreininni fyrir þá sem hana stunda og að starfað sem samkvæmt lögum.“

DEILA