Vikuviðtalið: Jóhann Bæring Gunnarsson

Ég heiti Jóhann Bæring Gunnarsson og er uppalinn á Ísafirði. Ég er giftur Sædísi Maríu Jónatansdóttir framkvæmdastýru Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Saman eigum við fjögur börn, tengdason, tvö barnabörn og einn hund. Ég starfa í dag sem framkvæmdastjóri hjá Ístækni ehf. Foreldrar mínir eru Sigurborg Þorkelsdóttir athafnakona frá Keflavík og Gunnar Albert Arnórsson skipstjóri frá Ísafirði. Ég er einn af fjórum systkinum, númer tvö í röðinni. Tengdaforeldrar mínir eru Lilja Ósk Þórisdóttir umsjónarmaður í félagsstarfi eldri borgara í Súðavík og Jónatan Ingi Ásgeirsson skipstjóri.

Hjá Ístækni vinn ég með frábæru fólki að skemmtilegum verkefnum. Ístækni tók til starfa í lok síðasta árs og á þessum stutta tíma hafa verkefni framkvæmdastjóra verið afar fjölbreytt. Ístækni framleiðir sérhæfðan búnað fyrir matvæla- og lækningaiðnað og sjávarútveg svo eitthvað sé nefnt. Við veitum einnig þjónustu sem snýr að viðhaldi á búnaði. Ístækni hefur þau megin markmið að skila sem bestum árangri fyrir viðskiptavininn, að gera vandaða framleiðsluvöru og veita frábæra þjónustu. Það skemmtilegasta við starfið eru samskipti við viðskiptavini og samstarfsfólkið, ásamt því að sjá hvernig hugmynd verður að fullbúinni lausn. Ég lít á það sem forréttindi að vinna í svona skapandi umhverfi með hópi af fólki sem býr yfir mikilli sérþekkingu og reynslu í að finna lausnir fyrir viðskiptavini okkar.

Fyrir utan vinnuna ver ég tíma með fjölskyldunni en mér finnst ég vera orðinn stórríkur af börnum og barnabörnum. Ég stunda útivist og gönguferðir með konu minni ásamt því að fara á svig- eða fjallaskíði þegar ég get. Einn af mínum uppáhalds stöðum á Vestfjörðum yfir vetrartímann er Botnsdalur í Súgandafirði sem er paradís fyrir þá sem stunda fjallaskíði. Á sumrin förum við hjónin í gönguferðir í góðra vina hópi og höfum gert það árlega í rúm 20 ár. Flestar af þessum ferðum eru farnar með allan búnað á bakinu í nokkra daga. Það er mjög endurnærandi. Síðasta haust byrjuðum við að hjóla og fórum í okkar fyrstu hjólaferð erlendis þegar við hjóluðum hluta af Jakobsveginum. Það var mögnuð upplifun og vonandi munum við geta klárað þá leið sem fyrst. Svo er ég virkur í Framsóknarfélaginu og sit í stjórn Skógræktarfélags Ísafjarðar. Einnig hef ég verið virkur í ýmsu íþrótta- og foreldrastarfi fyrir börnin mín í gegnum árin.

DEILA