Vikuviðtalið: Hildur Elísabet Pétursdóttir

Bolvískur Ísfirðingur eða ísfirskur Bolvíkingur?

 Þegar ég var lítil að alast upp í Bolungarvík hefði mér aldrei dottið til hugar að ég myndi búa á Ísafirði í framtíðinni. Enda ætlaði ég bara að vera hér á Ísafirði í tvö ár… en þau eru víst að verða 27.

Ég er fædd á gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði 4. ágúst 1971 en ólst upp í Bolungarvík í faðmi samheldinnar stórfjölskyldu. Ég á 4 systkini og er næstyngst í þeim hópi. Foreldrar mínir eru Helga Aspelund frá Ísafirði og Pétur Guðni Einarsson frá Bolungarvík en hann lést árið 2000. 

Eftir grunnskólann fór ég í Menntaskólann á Akureyri en ég hafði alltaf séð Akureyri í einhverjum hillingum eftir Andrésar Andarleikana sem barn. Ég hef aldrei séð eftir þeirri ákvörðun því þar kynntist ég manninum mínum en við höfum verið saman í 33 ár. Svavar Þór Guðmundsson er maðurinn minn, kennari við MÍ og eigum við 3 stráka, þá Tómas Helga, Pétur Erni og Guðmund Arnar og þrjú tengdabörn.  

Ég fór snemma að vinna við umönnun, byrjaði 16 ára að vinna á Skýlinu í Bolungarvík að hugsa um aldraða. Það var þá sem ég ákvað að verða hjúkrunarfræðingur. Eftir hjúkrunarnámið við Háskóla Íslands ætluðum við að vera í tvö ár á Ísafirði áður en við flyttum til Akureyrar þar sem stefnan var að búa í framtíðinni. En okkur leið svo vel hérna fyrir vestan að hér erum við enn, reyndar með smá námshléi eiginmannsins í Manchester þar sem við tókum fjölskylduna upp og fluttum út. Við höfðum á háskólaárunum tekið eitt ár í Frakklandi og vorum alltaf ákveðin í að leyfa strákunum að búa erlendis.

Ég hef starfað núna sem framkvæmdastjóri hjúkrunar við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða í 4 og ½ ár. Áður hafði ég verið deildarstjóri yfir hjúkrunarheimilunum Eyri og Bergi, aðstoðardeildarstjóri og almennur hjúkrunarfræðingur á bráðadeildinni.  Ég tók við framkvæmdastjórastarfinu 1. janúar 2020 en nokkrum dögum seinna féll snjóflóð á Flateyri og svo fljótlega skall Covid á í öllu sínu veldi. Þessi fyrstu tvö ár í starfi  voru því mjög krefjandi og lærdómsrík.

Starfið mitt er afar fjölbreytt og yfirleitt mjög skemmtilegt. Þetta er að mestu leyti stjórnunarstarf en einn dag í viku sinni ég klínísku starfi á hjúkrunarheimilunum sem veitir mér ómælda ánægju. Í vetur var ég svo sett tímabundið sem forstjóri og var það áhugaverð og góð reynsla. Ég hef því komið víða við sem starfsmaður Heilbrigðisstofnarinnar.  Hér starfa um 300 starfsmenn í rúmlega 200 stöðugildum. Stofnunin varð til í núverandi mynd árið 2014 við sameiningu þáverandi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Heilbrigðisstofnunarinnar á Patreksfirði. Stærstu starfsstöðvarnar eru á Ísafirði, þar sem rekið er sjúkrahús, heilsugæsla og hjúkrunarheimilið Eyri. Á Patreksfirði er samþætt sjúkradeild og hjúkrunardeild auk heilsugæslu. Í Bolungarvík og Þingeyri eru hjúkrunarheimili og heilsugæslusel. Á Bíldudal, Flateyri, Súðavík, Suðureyri og Tálknafirði eru heilsugæslusel. Umdæmi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða er eina umdæmið á landinu þar sem öll heilbrigðisþjónusta er rekin af einni stofnun, því enn eru einhver sveitarfélög og svo auðvitað sjálfseignarfélög að reka hjúkrunarheimili. það gefur því auga leið að starfssemin er gríðarlega mikilvæg og einn af hornsteinum samfélagsins.

Áhugamálin eru mörg og flest tengjast þau útiveru á einhvern hátt. Ég hef alla tíð verið sjúk í fjöllin, bæði sumar og vetur. Allar tegundir af skíðum eru hátt skrifaðar en á síðustu árum hafa gönguskíðin tekið mest yfir. Ekkert toppar þó fjallaskíðaferð í góðu veðri og flottu færi. Gönguferðir með allt á bakinu í góðra vina hópi eru dýrmætar. Eftir krefjandi dagsgöngu þar sem slegið er upp tjaldi, eldað við prímus og jafnvel kveiktur smá eldur í fjöruborðinu að kvöldi eru stundir sem aldrei gleymast. Við hjónin höfum verið með skotvopnaleyfi í 25 ár og reynum að ganga til rjúpna á hverju hausti með góðum vinum. Frá því í menntaskóla hef ég verið í kórum og finnst agalega gaman að syngja. Við hjónin tókum einmitt þátt í uppfærslu Litla leikklúbbsins og Tónlistarskóla Ísafjarðar á Fiðlaranum á þakinu og erum nýkomin úr Þjóðleikhúsinu þar sem sýningin var valin áhugaverðasta áhugasýning ársins. Ég hef í mörg ár verið að skokka mér til heilsubótar og er í stjórn hlaupahópsins Riddarar Rósu. Við skipuleggjum meðal annars Hlaupahátíðina á Vestfjörðum sem er fjögurra daga hlaupa- og hjólahátið um miðjan júlí sem teygir sig frá Bolungarvík og til Þingeyrar.

Áhugamál barnanna smitast svo óneitanlega yfir á okkur foreldrana. Strákanir hafa mikið verið í fótboltanum og var ég tengiliður samfellt í 18 ár, skipulagði ferðir og fjáraflanir og fór sem fararstjóri. Enn erum við mikið viðloðandi fótboltann og reynum að missa ekki af leik hjá þeim yngsta. Ég hef alla tíð verið mikið í félagsmálum og má þar meðal annars nefna stjórn Tónlistarfélags TÍ, stjórn Héraðssambands Vestfirðinga, stjórn Landssambands Heilbrigðisstofnana, sat í Velferðanefnd Ísafjarðarbæjar, stjórn fagdeildar um forystu í hjúkrun, formaður vestfjarðardeildar FÍh og fleira.

Á kvöldin þegar ró tekur að færast yfir og amsturs dagins að líða hjá finnst mér ekkert betra en að taka upp handavinnuna og hlusta á góða bók á meðan.

DEILA