Við getum öll orðið að liði

Hvers virði er það að eiga sér tungumál? Á Íslandi ríkir talsverð meðvitund um að vernda þurfi íslenskuna og kannski þess vegna virðist hverri kynslóð tamt að ætla að þær sem á eftir koma séu á góðri leið með að glutra henni niður. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeirri ógn sem steðjar að örmáli á tímum alþjóðavæðingar og það má kannski segja að um leið og einangrun okkar sem eyþjóðar sleppti þá hafi málið verið í ákveðinni hættu, þó síðan séu liðin allnokkur ár. Í því samhengi sem öðru er vert að minnast á að tungumál eru ekki steinsteyptar einingar þess óhagganlega. Tungumál eru lifandi og á meðan þau eru notuð þá halda þau áfram að þróast – og lifa. Íslenskan á því mikið undir því að við höldum áfram að nota hana.

Ísland er ekki lengur einangruð lítil eyja í norðri með læsum og skrifandi kotbændum sem reiða sig á mátt orðsins sem andans fóður öðru fremur. Við erum hluti af heiminum og heimurinn er hluti af okkur. Í áraraðir hefur nú fólk sem fæðst hefur í öðrum löndum flust hingað og auðgað samfélögin með kröftum sínum. Hér á Vestfjörðum nær sú saga yfir aldirnar. Síðustu áratugi hefur fjöldi innflytjenda þó aukist talsvert, en ég hef ekki upplifað annað hér á Vestfjörðum en við séum stolt af því að vera hluti af því fjölmenningarsamfélagi sem hér þrífst. Lengi vel vorum við sá landshluti sem státaði af flestum innflytjendum og strax upp úr aldamótum var farið að efna til ýmissa viðburða til að fagna fjölmenningunni. Fagna því að samfélögin byggði allskonar fólk sem legði til við að gera lífið hér auðugra með því að gefa okkur persónulega glugga inn í framandi menningarheima.

Hér hefur margt verið gert til að hlúa að fjölmenningarsamfélaginu og var til að mynda rétt upp úr aldamótum stofnað Fjölmenningarsetur. Það var til að geta veitt fólki sem sest hér að sem besta þjónustu til að það mætti sem best geta orðið hluti af samfélaginu en þyrfti ekki að hanga úti á jaðrinum, óstutt og einangrað. Síðustu ár hefur verið ráðist í nokkur eftirtektarverð verkefni sem styðja við ferli inngildingar af alúð. Má þar nefna Tungumálatöfra sem er sumarnámskeið fyrir fjöltyngd börn og verkefnið Gefum íslensku séns. Ég hef fengið að koma aðeins að báðum þessum verkefnum og verð að segja að ég tek ofan fyrir brautryðjendunum sem komu þessum fallegu verkefnum á koppinn. Á báðum stöðum hef ég fengið að sjá fólk spreyta sig á íslensku og öðlast meira sjálfstraust til að beita henni. Á báðum stöðum er líka gleðin við völd og mistökum er fagnað, því hvernig eigum við svo sem einhvern tímann að geta talað íslensku án þess að sú vegferð sé vörðuð allra handa ambögum. Við ættum að fagna þeim.

Það er nefnilega þannig í pottinn búið með Gefum íslensku séns að verkefnið er alls ekki bara ætlað þeim sem vilja læra íslensku heldur þeim sem tala hana. Því allir þeir sem þegar tala íslensku geta sannarlega verið notadrjúgir kennarar þegar kemur að máltileinkun nýrra íbúa – burtséð frá öllum kennararéttindum, því eins og mikið var imprað á við upphaf verkefnisins þá erum við öll almannakennarar. Ég vil því hvetja alla málhafa (þá sem þegar tala íslensku) til að sperra eyrun og taka þátt í verkefnum á vegum átaksins. Við getum öll lagt rækt við að vernda okkar ástkæra, ylhýra tungumál með því að beita því og verða að liði í máltileinkun annarra. Við getum alltaf spurt okkur: Er ég hluti af vandamálinu eða er ég hluti af lausninni? Með því að taka virkan þátt í máltileinkun annarra af höfðingsskap en ekki með háði getum við öll verið hluti af lausninni – íslenskunni til heilla.

Höfundur: Anna Sigríður Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá Vestfjarðastofu og fyrrum verkefnastjóri Tungumálatöfra og kennari hjá Gefum íslensku séns

Grein þessi er liður í greinaröð á vegum Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag rituðum af fólki sem lætur sig íslenskuna varða og vill bjóða fólk sem hingað flyst velkomið í íslenskt (mál)samfélag með íslenskuna og brosið að vopni.

DEILA