Vestri vann í Laugardalnum

Unnið var í gær að því að leggja púða undir gervigrasið á Kerecis vellinum. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Knattspyrnulið Vestra í Bestu deildinni lék í gær „heimaleik“ gegn Stjörnunni. Þar sem Kerecis völlurinn er ekki tilbúinn enn var leikið í Laugardalnum á velli Þróttar í Reykjavík.

Þrátt fyrir að leika í raun á útivelli léku Vestramenn á alls oddi og áttu góðan leik. Eftir aðeins 8 mínútna leik var Vestri búinn að skora tvö mörk. Daninn Jeppe Gertsen og Svíinn Johannes Selvén skoruðu mörkin. Stjarnan minnkaði muninn fljótt en þá skoraði Silas Songani þriðja markið og kom Vestra í 3:1. Aftur Skoraði Stjarnan fyrir hálfleik og minnkaði muninn. Í síðari hálfleik héldu Vetramenn aftur af sóknartilraunum Stjörnunnar og bættu við fjórða markinu um miðbik hálfleiksins þegar Toby King  skoraði glæsilegt mark. Lauk leiknum því 4:2 sem er glæsilegur árangur.

Nú verður gert hlé á mótinu vegna landsleikja og gefst Vestra þá kærkomið tækifæri fyrir meidda leikmenn til þess að jafna sig, en hópurinn er nokkuð laskaður um þessar mundir.

Árangur liðsins sem nýliða í efstu deild er því enn eftirtektarverðari en ella vegna meiðsla og vallarvandræða.

Liðið er í 9. sæti Bestu deildarinnar með 10 stig eftir 9 leiki og er fimm stigum fyrir ofan fallsæti.

Vonir standa til þess að unnt verði að leika á Ísafirði fyrsta heimaleikinn þann 22. júní þegar Valsmenn koma í heimsókn.

DEILA