Vatnsfjörður: rífandi sala á eldisfiski

Hjónin Sveinn Viðarsson og Kristín Ósk Matthíasdóttir.

Hjónin Sveinn Viðarsson og Kristín Ósk Matthíasdóttir sem reka fiskeldi í Vatnsfirði hófu að selja afurðir sínar í sjálfsafgreiðslu fyrir tveimur vikum og hefur verið rífandi sala. Sveinn sagði í samtali við Bæjarins besta að selst hafi fyrir 600-700 þúsund krónur á þessum tveimur vikum.

Í Vatnsfirði er jarðhiti nýttur til þess að ala bleikju. Eru hrognin fengin frá Hólum úr stofni þar í nágrenninu og þau klakin út í Vatnsfirði. Bleikjan er hraðvaxta og holdmikil og því góð til eldis. Þá er fóðrið lífrænt og allt unnið úr þörungum og fengið frá Laxá í Eyjafirði.

Sveinn segir að eldið í Vatnsfirði sé orðið 42 ára gamalt og hafi alla tíð verið lyfja- og sjúkdómalaust. Verið sé að byggja nýtt eldishús og auk þess að koma upp íbúðarhúsi.

Hann segir að þau hjón séu með um 20 tonna lífmassa pr. mánuð og framleiðslan sé um 24 – 26 tonn yfir árið af flökum sem sé selt á innanlandsmarkað. Þetta sé nóg fyrir þau.

En það er ekki bara fiskeldi sem er stundað í Vatnsfirði. Þau eru líka með aliendur og selja andaregg og hænsnaegg og til það krydda þetta frekar eru til sölu jarðarber og hindber.

Í afgreiðsluhúsinu eru vörurnar pakkaðar og verðmerktar og geta vegfarendur keypt sína vöru og skilið eftir pening eða millifært á reikning.

Sjálfsafgreiðsluaðstaðan í Vatnsfirði.

DEILA