Útflutningstekjur: lax í öðru sæti

Útflutningsverðmæti einstakra fisktegunda. Heimild:Radarinn.

Síðustu fimm árin hefur útflutningur á eldislaxi skilað næstmestum útflutningstekjum af öllum fisktegundum sem fluttar eru frá Íslandi. Þorskurinn er langmikilvægasta fisktegundin og skilaði 136 milljörðum króna í útflutningstekjur á síðasta ári. Eldislaxinn var í öðru sæti með 37 milljarða króna tekjur og hefur skotist fram úr loðnuafurðum, sem voru í fyrra í þriðja sæti.

Þetta kemur fram í frettabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Radarnum.

Þar er vakin athygli á vaxandi hlutdeild eldislaxins og þar segir um framtíðarhorfurnar:

„Hvað sem því líður mun lax vafalaust hreppa annað sætið þetta árið og jafnframt næstu ár. Enda er vandséð annað en að hlutur laxins muni vaxa enn frekar á komandi árum og að hann muni þar með festa sig rækilega í sessi sem annar tekjuhæsti fiskurinn þegar kemur að gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Að sjálfsögðu geta aðrar fisktegundir bætt við sig, en þegar veitt er úr náttúrulegum stofnum er magnaukning þeirra miklu óvissari.“

13% af útflutningsverðmæti sjávarafurða

Hlutdeild eldislaxins fer vaxandi í útflutningtekjum landsmanna og segir í Radarnum að að á fyrstu fimm mánuðum ársins vógu útflutningsverðmæti af laxi einum og sér rúmlega 13% af útflutningsverðmæti sjávarafurða og 5% af verðmæti alls vöruútflutnings. Þessi hlutföll hafa aldrei mælst hærri á þessum tíma árs.

Vægi lax í samanlögðum útflutningstekjum af vöru- og þjónustuviðskiptum, en þær tölur eru einungis birtar ársfjórðungslega hefur einnig farið vaxandi. Þar er hlutdeild lax á fyrsta fjórðungi í ár 3,6% og hefur aldrei mælst hærri á fjórðungnum, sé undanskilið það tímabil sem áhrifa COVID-faraldursins gætti hvað mest.

Stöplarit úr Radarnum.

DEILA