Þingeyri: svigrúm til að færa hreinsistöðina

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

„Við höfum verið í samskiptum við íbúa vegna staðsetningar á hreinsistöðinni auk þess sem verkefnið var kynnt á íbúafundi í maí sl.“ segir Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í skriflegu svari við fyrirspurn Bæjarins besta.

Gert er ráð fyrir að hreinsistöðin verði staðsett á iðnaðar- og athafnalóð sem Ísafjarðarbæ á Þingeyararodda. Arna Lára segir að verið sé að skoða með hönnuði verksins hvaða leiðir eru færar til að koma betur til móts við ábendingar íbúa. „Svigrúm er til staðar að færa stöðina innan lóðarinnar.“

Ísafjarðarbær hefur hafið framkvæmdir við skolphreinsistöð á Þingeyraroddanum. Þar verður settur upp 20 feta gámur á svæði við hliðina á vitanum, Víkingasvæðinu og um 55 metra frá tjaldsvæðinu, þar sem bæjar búar og ferðamenn fara og njóta ósnortinar fjörunnar og þaðan er stundað sjósund.

Sú staðsetning hefur sætt gagnrýni meðal íbúa á Þingeyri.

DEILA