Súlan er stór, ljós og rennilegur sjófugl. Fullorðin súla er nær alhvít, með gulleitan haus og svarta vængenda. Vængir eru langir, oddmjóir og stélið fleyglaga. Ungfugl er margbreytilegur að lit en þó alltaf auðþekktur á stærð, lögun og hegðun frá öðrum sjófuglum. Nýfleygir ungar eru aldökkir með ljósum dílum, en lýsast smám saman þangað til þeir skrýðast fullorðinsbúningi fjögurra ára gamlir. Kynin eru eins.
Súlan er oft nefnd drottning Atlantshafsins vegna þess hve tíguleg hún er. Er venjulega félagslynd og flýgur oft í litlum hópum lágt yfir haffleti. Flugið er kraftmikið með djúpum vængjatökum, brotið upp af svifflugi með aftursveigðum vængjum. Er fremur létt á sundi.
Súlukast er það kallað þegar súlan stingur sér eftir æti með aðfelldum vængjum, lóðrétt úr allt að 40 m hæð, en einnig á ská úr minni hæð á grunnu vatni. Fæðan er fiskur, eins og síld, loðna, makríll, þorskfiskar, sandsíli o.fl., jafnvel úrgangur frá fiskiskipum.
Súlan er að mestu farfugl. Um helmingur íslenskra súlna verpa í Eldey, sem er eitt stærsta varp í heimi. Vetrarstöðvar eru í Norður-Atlantshafi. Íslenskar súlur hafa fundist á Grænlandi og með ströndum Vestur-Evrópu suður til Vestur-Afríku. Þær hverfa að mestu frá landinu í október−desember. Varpheimkynni auk Íslands eru í Kanada, Færeyjum, á Bretlandseyjum, í Noregi, Þýskalandi og Frakklandi.
Af fuglavefur.is