Súðavík: Yordanova  fékk viðurkenningu Rauða krossins

Genka Krasteva G. Yordanova fékk á þriðjudaginn viðurkenningu fyrir framúrskarandi sjálfboðið starf í þágu Rauða krossins.

Hún hefur leitt Rauða krossinn í Súðavík um árabil, en hann sameinaðist nýlega öðrum deildum við Ísafjarðardjúp. Deildin stendur í ströngu á hverjum vetri, enda lokast Súðavíkurhlíðin jafnan oft á ári vegna snjóflóðahættu. Í fámennri deild er það hlutskipti fárra að tryggja opnun fjöldahjálparstöðvar fyrir strandaglópa. Hvergi á landinu eru fjöldahjálparstöðvar virkjaðar jafn oft og einmitt í Súðavík. Og alltaf stendur Genka vaktina með traustum hópi sjálfboðaliða segir í tilkynningu Rauða krossins.

„Við getum verið stolt af því að hafa jafn öflugan sjálfboðaliða og Genku innan okkar raða. Við þurfum samt að hafa það í huga að skil milli skyldurækni og sjálfboðinnar þjónustu verða stundum óljós á fámennum stöðum. Sjálfboðaliðastarf má aldrei verða að kvöð.“

Genka komst því miður ekki á aðalfund Rauða krossins í maí, því fór Kristín S Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri félagsins, til Súðarvikur á þriðjudaginn og afhenti viðurkenninguna á Melrakkasetri Íslands að viðstöddum góðum hópi gesta.

Frá athöfninni í Melrakkasetrinu.

Ljósmyndir: Rauði krossinn og Súðavíkurhreppur.

DEILA