Strandabyggð: frestað að heimila undirskriftasöfnun

Sveitarstjórn Strandabyggðar frestaði því í síðustu viku að taka afstöðu til erindis um undirskriftasöfnun meðal íbúa. Það var Jón Jónsson á Kirkjubóli sem tilkynnti sveitarstjórn um fyrirhugaða undirskriftasöfnun. Málið snýst , að sögn Jóns, um ásakanir frá lykilstarfsfólki Strandabyggðar um „sjálftöku fjármuna úr sjóðum sveitarfélagsins á meðan ég sat í hreppsnefnd á síðasta kjörtímabili. Einungis er miðað við þær skriflegu ásakanir sem bornar hafa verið fram af starfsfólki sveitarfélagsins á þessu kjörtímabili. Ég vil semsagt að meintir glæpir mínir verði rannsakaðir af óháðum aðila og þessar ásakanir um leið. Það er allra hagur að öll þessi mál séu upplýst og ef um sjálftöku úr sveitarsjóði er að ræða á auðvitað að krefjast endurgreiðslu.“

Í fundargerð sveitarstjórnar segir að sveitarstjórn skuli „innan fjögurra vikna eftir að hún hefur fengið tilkynningu um fyrirhugaða undirskriftarsöfnun meta hvort ákvæði 3. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga hamli því að unnt sé að krefjast almennrar atkvæðagreiðslu um viðkomandi mál og skal hún tilkynna ábyrgðaraðila um þá niðurstöðu sína án tafar. Sveitarstjórn skal jafnframt leiðbeina ábyrgðaraðila um orðalag tilkynningarinnar og önnur framkvæmdaratriði eftir því sem þörf er á og veita honum frest til að bæta úr annmörkum, sé tilefni til.“ og ennfremur segir: „Í samræmi við ofangreint mun bréfritara verða tilkynnt um afstöðu sveitarfélagsins til erindisins innan þess frests sem sveitarstjórn hefur til þess.“

Meirihluti sveitarstjórnar, þrír fulltrúar T lista samþykktu að undirskriftasöfnunni yrði að sinni frestað og leitað yrði til lögfræðings sveitarfélagsins, til þess að undirskriftasöfnunin standist lög og reglugerðir. Og sveitarfélagið nýti tímafrestinn til að afla sér gagna, en reynir þó að flýta svörum eins og hægt er.

Einn fulltrui A lista greiddi atkvæði gegn þessari afgreiðslu og annar sat hjá.

Áður hafði sveitarstjórn fellt tillögu um að samþykkja undirskriftasöfnunina með þremur atkvæðum gegn einu, einn fulltrúi sat hjá.

DEILA