Strandabyggð: fagna byggðakvóta – leggjast ekki gegn vali á útgerð

Hólmavíkurhöfn í vikunni. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Strandabyggðar afgreiddi í síðustu viku umsögn sína um ráðstöfun 500 tonna byggðakvóta Byggðastofnunar til Hólmavíkur vegna fiskveiðiársins 2023/24.

Svonefnd aflamarksnefnd innan Byggðastofnunar lagði til að útgerðarfyrirtækinu Vissa ehf og samstarfsaðilar þess fengju kvótann.

Í bókun sveitarstjórnar segir:

„Sveitarstjórn Strandabyggðar fagnar ákvörðun Aflamarksnefndar Byggðastofnunar um úthlutun aflamarks til Hólmavíkur. Sveitarstjórn leggst ekki gegn niðurstöðu Aflamarksnefndar og starfsmanna Byggðastofnunar um að veita Vissu útgerð ehf og samstarfsaðilum þennan kvóta. Sveitarstjórn óskar Vissu útgerð ehf og samstarfsaðilum til hamingju með ákvörðun Byggðastofnunar“.

Vissa útgerð ehf á bátinn Hlökk ST 66 sem er gerður út á grásleppu og hefur 177 tonna þorskkvóta og 156 tonna kvóta af ýsu.

Málið var áður rætt í sveitarstjórninni í byrjun apríl sl. og þá lýsti Strandabandalagið yfir vonbrigðum að ekki hafi tekist samkomulag milli heimamanna og Stakkavíkur frá Grindavík, sem hafði hug á að flytja fiskvinnslu sína til Hólmavíkur. Hvatti Strandabandalagið alla hlutaðeigandi, þar með talið Byggðastofnun, til þess að hugleiða „samstarf sem gæti leitt af sér sameiginlega umsókn um sértækan byggðakvóta til lengri tíma, þegar það ferli fer í gang af hálfu Byggðastofnunar á næstu vikum.“

DEILA