Rúmur milljarður til uppbyggingar öldrunarþjónustu

Rúmlega einum milljarði króna hefur verið úthlutað úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Þetta er hæsta úthlutun úr sjóðnum til þessa.

Hlutverk sjóðsins er að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um land allt. Veitt voru framlög til 73 verkefna á hjúkrunarheimilum víðsvegar um landið. Við úthlutun lagði stjórn Framkvæmdasjóðsins áherslu á verkefni sem stuðla að bættum aðbúnaði og auknu öryggi íbúa. Þar má nefna breytingu tvíbýla í einbýli, endurbætur á einkarýmum og sameiginlegum rýmum íbúa, bætta aðstöðu til endurhæfingar og þjálfunar, greiðara aðgengi innanhúss og utan og ýmis fleiri öryggismál auk almennra viðhaldsverkefna.

Af einstökum verkefnum sem hlutu framlag úr sjóðnum í ár má nefna 91 milljón króna til nýbyggingar við Hjúkrunarheimilið Skjólgarð á Höfn þar sem verður framleiðslueldhús og fjölnotasalur. Þá fær dvalarheimilið Naust í Langanesbyggð um 106 milljónir króna til viðbyggingar við heimilið og endurbóta innan- og utanhúss. Enn fremur fær hjúkrunarheimilið Skjól í Reykjavík samtals um 140 milljónir króna til endurbóta á baðherbergjum, endurnýjunar á lyftu og vegna viðamikilla framkvæmda á loftum og lýsingu. Hjúkrunarheimilin Grund og Eir fá bæði framlög til að breyta tvíbýlum í einbýli, auk framlaga til ýmissa fleiri viðhalds- og endurbótaverkefna.

Eftirtaldar framkvæmdir á Vestfjörðum fengu úthlutun að þessu sinni:


Ísafjarðarbær, Hlíf Framkvæmdir á hreinlætisaðstöðu á Hlíf 2.193.200
Ísafjarðarbær, Hlíf Bættur aðbúnaður í mötuneyti 1.192.985
Ísafjarðarbær, Hlíf Carendo rafknúinn sturtustóll 210.602
Ísafjarðarbær, Hlíf Innri endurbætur 5.850.030

DEILA