Rúmlega 200 sóttu um 16 stöðugildi

Svæðisstöðvar íþróttahéraðanna eru átta um allt land og eru tvö stöðugildi á hverri stöð. Rúmlega 200 einstaklingar sóttu um störfin 16 sem auglýst voru.

„Við fengum umsóknir frá mörgum flottum og frambærilegum einstaklingum í stöðu starfsfólks svæðisstöðva íþróttahéraðanna um allt land. Afar vel hefur gengið að ráða í stöðurnar og nú eru aðeins tvö stöðugildi eftir,“ segir verkefnastjórinn Hanna Carla Jóhannsdóttir. Hún hefur stýrt fyrstu skrefum, innleiðingu og skipulagi svæðisstöðvanna.

Hanna Carla segir að á undanförnum vikum hafi verið tekin viðtöl við umsækjendur og verið frábært að sjá hversu margir sýndu störfunum áhuga. Nú sé búið að ráða í 14 stöðugildi af 16 og vonir bundnar við að ráða í störfin sem eftir eru bráðlega.

Fyrstu skrefin voru unnin með tengiliðum sem tilnefndir voru frá hverju íþróttahéraði í ráðningarferlinu í samstarfi við Hagvang. Næstu skref í ferlinu tengjast praktískum atriðum á borð við aðgengi að gagnasöfnum og staðsetningu viðkomandi starfsmanns á hverjum stað. Í ágúst verður fundað um þjónustusamninga við íþróttahéruð og aðgerðaráætlun mótuð fyrir hvert svæði.

Eftirfarandi 14 einstaklingar voru ráðnir í eftirfarandi stöður:

Höfuðborgarsvæðið: Íris Svavarsdóttir / Sveinn Sampsted

Vesturland: Álfheiður Sverrisdóttir / Heiðar Már Björnsson

Suðurnes: Petra Ruth Rúnarsdóttir / Sigurður Friðrik Gunnarsson

Austurland: Jóhann Árni Ólafsson / Jóhanna Íris Ingólfsdóttir

Suðurland: Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir / Rakel Magnúsdóttir

Vestfirðir: Birna F. S. Hannesdóttir

Norðurland eystra: Hansína Þóra Gunnarsdóttir / Þóra Pétursdóttir

Norðurland vestra: Halldór Lárusson

DEILA