Rósa Björk Barkardóttir sæmd fálkaorðunni

Rósa Björk Barkardóttir.

Einn þeirra sextán einstaklinga sem var sæmd fálkaorðunni á þjóðhátíðardaginn er Súðvíkingurinn Rósa Björk Barkardóttir sameindalíffræðingur. Riddarkrossinn fékk Rósa fyrir framlag til vísinda og krabbameinsrannsókna. Foreldrar hennar voru Börkur Ákason, framkvæmdastjóri Frosta og Kristín Margrét Jónsdóttir. Rósa ólst upp í Súðavík. Maki hennar er Haraldur Leifsson frá Ísafirði.

Rósa starfar á Landsspítalanum og hefur frá 2016 verið formaður vísindaráðs spítalans.

Þegar hún tók við sem formaður vísindaráðs kynnti Landsspítalinn störf hennar svo:

Rósa Björk hefur verið mjög virkur vísindamaður, hefur haft umsjón með umfangsmiklum rannsóknum og tekið þátt í mörgum alþjóðlegum samstarfsverkefnum. Hún hefur skrifað og verið meðhöfundur á fjölda greina sem birst hafa í erlendum tímaritum og tilvitnanir í þessar greinar skipta þúsundum. Markverðustu vísindaniðurstöður Rósu Bjarkar og samstarfsfólks hennar tengjast brjóstakrabbameini og meðfæddri áhættu til myndunar meinsins. Þau taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um leit og einangrun brjóstakrabbameinsgena sem hafa m.a. leitt til einangrunar brjóstakrabbameinsgenanna BRCA1 og BRCA2. 

DEILA